Einfölduð útgáfa

Þetta skjal er tilraun mín til þess að einfalda málfar bókarinnar Laxdæla Saga (Óþekktur höfundur o.fl., 2017). Skjal þetta er skapað með það að leiðarljósi að gera söguna enn aðgengilegri en hún þegar er.

Yfirlýsing: Texti þessi er ætlaður nemendum í íslenskri móðurmálskennslu og ekki ætlaður til dreifingar. Enn fremur er þessum texta ekki ætlað að skyggja á útgáfu bókarinnar sem aðgengileg er á vefsvæði Menntamálastofnunar. Allur höfundarréttur liggur hjá útgefanda bókarinnar en ekki hjá mér.

Kveðja, Jón Ingi Hlynsson

1. Unnur djúpúgða

Ketill flatnefur var höfðingi í Noregi en þegar Haraldur konungur hárfagri tók yfir völd ákvað Ketill að flýja land með fjölskyldu sinni. Hann vildi nefnilega ekki verða undirmaður Haralds.

Synir Ketils, Björn og Helgi, vildu flytja til Íslands. Þeir sögðu Katli (pabba sínum) að þar væri nóg af landi sem ekki þyrfti að kaupa. Enn fremur, að nóg væri um fisk á Íslandi. Hins vegar leist Katli illa á þessa tillögu þeirra og kvaðst1 aldrei vilja koma þangað. Hann væri orðinn gamall.

Synir Ketils sigldu til Íslands. Björn settist að á Snæfellsnesi og kallaði bæ sinn Bjarnarhöfn en Helgi á Kjalarnesi og bjó á Esjubergi.

Ketill fluttist til Skotlands og tók dóttur sína með sér. Dóttir Ketils hét Unnur og var kölluð Unnur djúpúgða2.

Allt sama gerist þetta á víkingaöld3. Þegar Ketill var drepinn ákvað Unnur að sigla til Íslands. Um það var talað að aldrei áður hefi kona náð að flýja frá sambærilegum aðstæðum með jafnmikið fé4 og margt fólk með sér og Unnur gerði þarna. Því er auðséð að Unnur hafi verið mikið afbragð annarra kvenna5.

Fyrsta veturinn sinn á Íslandi dvaldi Unnur hjá Byrni bróður sínum, en Helgi hafði ekki viljað bjóða nema helmingnum af fólkinu sem Unnur var með sér að vera hjá sér.

Vorið eftir fór Unnur vestur í Dali og nam þar land. Unnur byggði sér bæ í Hvammi en gaf ferðafélögum sínum land víða um Dali. Einn af ferðafélögum Unnar hét Kollur. Unnur átti son sem hét Þorsteinn og Þorsteinn átti dóttur sem hét Þorgerður. Þorgerður giftist Kolli og gaf Unnur þeim allan Laxárdal. Kollur var síðan kallaður Dala-Kollur.

Yngsti sonur Þosteins hét Ólafur feilan6. Hann bjó hjá Unni í Hvammi. Þegar Unnur var orðin gömul og lasburða af elli sagði hún við Ólaf að nú væri kominn tími fyrir hann að eignast konu7. Síðan var fundin kona handa Ólafi og haldin brúðkaupsveisla.

Allir skemmtu sér vel í veislunni og í henni tilkynnti Unnur að Ólafur skyldi nú fá að eiga bæ sinn á Hvammi með öllu sem því fygldi. Gestirnir höfðu orð á því að Unnur væri enn virðuleg.

Unnur hafði það fyrir venju að fara ekki á fætur fyrr en um miðjan dag. Daginn eftir veisluna svaf hún þó svo lengi að Ólafur ákvað að kíkja á hana en þá var hún dáin.

Ólafur feilan tók við búi í Hvammi og bjó þar til elli.

2. Höskulur Dala-Kollsson kaupir ambátt

Dala-Kollur og Þorgerður Þorsteinsdóttir áttu son sem hét Höskuldur. Hann átti konu sem hét Jórunn og tók Höskuldur við búi í Laxárdal eftir föður sinn. Bær þeirra hét Höskuldsstaðir. Jórunn og Höskuldur eignuðust fjögur börn saman.

Einu sinni sigldi Höskuldur til Noregs til þess að kaupa timbur í nýjan bæ. Þegar Höskuldur var í Noregi var mikið um að vera og fólk frá fleiri löndum í Evrópu saman komið á fundi. Þangað kíkti Höskuldur og rak auga í stærðarinnar tjald. Inni í tjaldinu hitti hall mann sem kvaðst heita Gilli og vera kallaður Gilli hinn gerski8.

Höskuldur kannaðist við Gilla og vissi að hann væri ríkur kaupmaður9. Höskuldur segir við Gilla að hann ætli sér að kaupa ambátt10. Gilli gekk með Höskuldi að fortjaldi sem hékk þvert yfir tjaldið og svipti því frá. Fyrir innan sátu tólf konur í röð.

Höskuldur og Gilli í tjaldinu

Gilli segir Höskuldi að sjá hvort hann vilji kaupa einhverra þeirra tólf og fangar illa klædd kona auga hans. Höskuldi þykir hún fríð og spyr Gilla hvað hún kosti. Gilli svarar að hún kosti þrjár merkur slifurs en það þykir Höskuldi heldur dýrt og sé líkara þriggja ambátta verði. Gilli býður honum þá að velja einhverja aðra fyrir eina mörk en Höskuldur biður Gilla fyrstu um að koma með vog svo hann geti vigtað magn sitt af silfri áður en hann tekur ákvörðun.

Þá segir Gilli Höskuldi að galli sé á konunni, hún sé ómála11. Gilli segist hafa endurtekið reynt að tala við hana en aldrei fengið svar. Fyrir vikið segist Gilli viss um að konan kunni ekki að tala.

Gilli kemur þar næst með vogina og kemur í ljós að Höskuldur er með þrjár merkur af slifri.

Silfrið vigtað

Höskuldur kaupir því mállausu konuna og fer með henni heim í tjald sitt. Sagt er að þau hafi sofið saman um nóttina. Morguninn eftir lét Höskuldur konuna fá ný og góð kvenföt og var um talað að þau færu henni vel. Síðan fór Höskuldur með konunni að skipi sínu, hlóð það af timbri og sigldi til Íslands.

3. Melkorka

Þegar Höskuldur kom heim með ambáttina tók Jórunn, kona hans, vel á móti honum en spurði hvaða kona væri með honum. Höskuldur svaraði henni að hann vissi ekki nafn hennar.

Þá sagðist Jórunn hafa frétt að þau hefðu sofið saman og taldi ólíklegt að Höskuldur hefði ekki spurt hana nafni. Þá sagði Höskuldur Jórunni allan sannleikan og sagðist vilja að konan byggi hjá þeim á Höskuldsstöðum.

Jórunn sagðist ekki ætla deila við frillu12 Höskulds, sérstaklega þar sem hún er bæði dauf13 og mállaus.

Um veturinn eignaðist ambáttin sveinbarn14, stórt og fallegt. Höskuldur var spurður hvað ætti að skýra drenginn og sagði Höskuldur að hann skyldi heita Ólafur. Ólafur feilan, móðurbróðir Höskulds í Hvammi, hafði látist stuttu áður og skýrði Höskuldur son sinn því í höfuðið á honum.

Ambáttin fékk það hlutverk að gæta sveinsins og var Ólafur Höskuldsson bráðþroska. Tveggja vetra gamall var hann altalandi og hljóp um eins og fjögurra vetra börn.

Einn morguninn var Höskuldur á gangi í kringum bæinn þegar hann heyrði mannamál. Höskuldur gekk á hljóðið og sá Ólaf son sinn og ambáttina við lítinn læk. Þá heyrði Höskuldur að ambáttin var ekki mállaus því hún talaði margt við sveininn.

Ambáttin og Ólafur við lækinn og Höskuldur að fylgjast með

Höskuldur gengur til þeirra og spyr konuna að nafni, segir að hún geti ekki lengur haldið því leyndu hver hún sé.

Konan svarar og segist heita Melkorka. Höskuldur biður hana þá að segja hverra manna hún sé og svarar Melkorka að Mýrkjartan, konungur á Írlandi, sé faðir hennar. Hún segist hafa verið hertekin fimmtán vetra gömul.

Höskuldur sagði Jórunni, konu sinni, fréttirnar og ekki varð hún betri við Melkorku eftir þetta. Eitt kvöldið var Jórunn að hátta og togaði Melkorka af henni sokkana og lagði þá á gólfið. Jórunn tók þá sokkana og sló Melkorku í höfuðið með þeim. Við það reiddist Melkorka og kýldi Jórunni í andlitið þannig blæddi úr nefi hennar. Höskuldur skildi þær í sundur en lét Melkorku fara burt með Ólaf í bústað uppi í Laxárdal. Þar byggði hún bæ og kallaði Melkorkustaði.

4. Ólafur pái

Þegar Ólafur var sjö vetra gamall fór hann í fóstur til auðugs bónda sem var kallaður Þórður goddi15 og bjó á Goddastöðum.

Þegar Ólafur óx upp varð hann mikill skartmaður í klæðaburði og var kallaður Ólafur pái16. Hann var þó líka stundum hjá móður sinni á Melkorkustöðum og kenndi hún honum írsku.

Þegar Ólafur var sautján vetra stakk Melkorka upp á að hann færi að vitja frænda sinna á Írlandi. Ólafur sagðist hafa talað um þetta við föður sinn en Höskuldi hafði verið illa við að láta hann hafa fé fyrir ferðina.

Melkorka sagði að henni líkaði illa við að Ólafur væri kallaður ambáttarsonur og greip til þeirra ráða að giftast manni sem var kallaður Þorbjörn skjúpur17. Melkorka vildi að brúðkaupið færi fram og að Þorbjörn myndi kosta ferð Ólafs til Írlands strax um sumarið og á meðan Höskuldur væri á Alþingi þannig hann myndi ekkert vita fyrr en eftir á.

Um sumarið er Höskuldur að gera sig tilbúinn til að fara til Alþingis og bað Ólaf að koma með. Ólafur sagðist ekki mega við því, hann þyrfti að láta hlaða gerði handa lömbum við Laxá. Höskuldi líkaði vel að Ólafur vildi huga að búinnu og hélt til Alþingis.

Þar næst var brúðkaup Melkorku og Þorbjarnar skrjúps haldið og Ólafur undirbjó Írlandsferðina. Áður en Ólafur fór lét Melkorka hann hafa gullhring og sagði að faðir hennar hefði gefði henni hann að tannfé18 og vænti þess að hann þekkti hann ef hann sæi hann.

Hringurinn sem Mekorka hafði fengið í tannfé og gaf Ólafi

Ólafur fékk til aukreitis við hringinn, hníf og belti sem hann átti að sýna fóstru Melkorku. Þá ætti engin vafi að vera á því hverra manna Ólafur væri. Eftir þetta hélt Ólafur á stað.

5. Írlandsför

Þegar þetta gerist var Haraldur gráfeldur konungur í Noregi. Ólafur og Örn fóru fyrst til hans og voru einn vetur áður en þeir héldu til Írlands.

Örn hafði áhyggjur af því að skip þeirra yrði hertekið af Írum er þeir kæmu í land en Ólafur sagði honum að hafa ekki áhyggjur af því. Þegar þeir komu að höfninni spurðu tveir menn þá á írsku hverjir þeir séu og svaraði Ólafur þeim á írsku. Írarnir sögðu þeim að ganga af skipinu og skilja allt fé sitt þar eftir, enginn mundi gera þeim mein þangað til konungur dæmdi í máli þeirra.

Ólafur féllst ekki á að gefa upp bátinn og æptu Írar heróp og óðu út í sjóinn að skipinu. Vatnið var ekki dýpra en svo að það náði þeim upp undir hendurnar. Ólafur bað skipverja sína að taka upp vopn og fylkja liði á skipinu. Stóðu þeir svo þétt að skipið var allt skarað skjöldum og spjótsoddur út með hverjum skyldi.

Ólafur gekk fram í stafninn, klæddur í brynju og með gullroðinn hjálm á höfði. Hann var gyrtur sverði, hafði krókaspjót í annarri hendinni og rauðan skjöld með máluðu ljóni á í hinni. Við þetta koma skipverjar auga á mikið riddaralið ríða í átt til sín. Ólafur tekur því fagnandi og segir það bæta söðuna þar sem Mýrkjartan konungur sé með í för.

Mýrkjartan og Ólafur tala saman og segir Ólafur konungi hverra manna hann sé og að dóttir hans, Melkorka, sé móðir hans. Fygldarlið Mýrkjartans hafa orð á því að hann tali allra mann best írsku og sé augljóslega stórættaður maður. Eftir þessa yfirlýsingu Ólafs segir Mýrkjartan að Ólafur og skipverjar hans fái grið en kveðst þurfa ræða meira við Ólaf til að segja til um frændsemi19 þeirra.

Þar næst gengur Ólafur af skipinu og sýnir konungi gullhringinn sem Melkorka hafði látið hann fá. Mýrkjartan tók við hringnum og roðnaði í andliti. Hann þekkti hringinn strax og sagði líka að Ólafur væri svo líkur móður sinni að vel mætti þekkja hann af henni. Mýrkjartan bauð Ólafi að koma með sér til hirðar20 sinnar með alla sína menn og riðu þeir til Dyflinnar þar sem konungur hafði aðsetur.

Það þóttu mikil tíðindi í Dyflinni að kominn væri dóttursonur konungs, sonur Melkorku sem hafði verið hertekin fimmtán vetra gömul. En mest þótti fóstru Melkorku um þetta sem var orðin gömul og lasin en gekk þó staflaust á fund Ólafs.

Ólafur faðmaði hana og lét hana hafa hnífinn og beltið og þekkti hún gripina. Hún var hress allan þann vetur.

Konungur sat sjaldan auðum höndum á veturna, því hann þurfti sífellt að verja land sitt fyrir víkingum. Ólafur var jafnan í för með honum með menn sína og þótti sú hersveit heldur herská21.

Síðari hluta vetrar kallaði konungur saman þing og hélt þar ræðu. Hann sagðist hafa ákveðið að bjóða Ólafi konungdóm eftir sinn dag, því hann væri betur fallinn til þess að vera konungur en synir sínir. Ólafur þakkaði boðið en sagðist ekki vilja hætta á hvernig synir hans þyldu að hann væri tekinn fram yfir þá. Betra væri að fá skjóta sæmd en langa svívirðingu. Enn fremur sagði hann að Melkorku myndi líka illa við ef hann kæmi ekki aftur heim. Konungur bað Ólaf að ráða22 og var þinginu slitið.

Þegar skip Ólafs var ferðbúið23 fylgdi konungur honum til skips og gaf honum gullrekið spjót og sverð og mikið fé. Ólafur bað um að fá að flytja fóstru Melkorku með sér til Íslands en konungi þótti það óþarfi og varð hún eftir.

Þegar Ólafur kom heim til Íslands tóku allir vel á móti honum. Melkorka spurði hann um ferðina, um föður sinn og hvort fóstra hennar væri á lífi. Ólafur sagði svo vera og spurði Melkorka þá hvers vegna hann hafi ekki tekið hana með sér til Íslands. Ólafur svaraði og sagði að það hefði ekki verið löngun Íranna að hann flytti fósturna með sér.

Það á fannst að Melkorku var það mjög á móti skapi.

6. Bónorð Ólafs

Vorið eftir lagði Höskuldur til við Ólaf að hann fyndi sér konu og tæki við búa fóstra síns á Goddastöðum. Ólafur sagðist lítið hafa hugsað um slík mál og vildi ekki kvænast hvaða konu sem er.

Höskuldur sagði að maður sem héti Egill Skalla-Grímsson ætti dóttur sem héti Þorgerður og að þau byggju á Borg í Borgarfirði. Höskuldur lagði til að Ólafur kvæntist henni og sagði hana besta kvenkostinn í öllum Borgarfirði og þó að víðar væri leitað.

Ólafur sagðist mundi fara að ráðum föður síns og að honum væri þetta ráð24 að skapi, ef það tækist. Hins vegar sagði að Ólafur að honum mundi illa líka ef þetta mál væri borið upp og það síðan ekki takast.

Höskuldur sagðist reikna með því að bónorðinu yrði tekið og Ólafur biður hann að ráða.

Líður nú til Alþingis og leggja Höskuldur og Ólafur leið sína þangað. Egill Skalla-Grímsson var á þingi. Allir þeir sem sáu Ólaf höfðu orð á því að hann væri fríður og fyrirmannlegur25.

Einn daginn ganga Höskuldur og Ólafur til fundar við Egil. Hann fagnar þeim feðgum og ber Höskuldur bónorðið undir hann fyrir hönd Ólafs og biður Þorgerðar. Hún var einnig stödd á þinginu.

Egill tók þessu máli vel og sagðist hafa heyrt góða hluti um þá feðga. Hins vegar sagði Egill að þetta þyrfti að ræða við Þorgerði þar sem enginn myndi eignast hana fyrir eiginkonu án hennar vilja. Höskuldur bað Egil um að ræða þetta við dóttur sína og sagðist hann skyldu gera það.

Egill ræddi við Þorgerði og sagði henni að Ólafur Höskuldsson, einhver frægasti maður sem nú er uppi hefur í gegnum föður sinn lýst yfir áhuga að kvænast henni. Þorgerður svarar: „Ég hef heyrt að þú unnir mér mest af börnum þínum en nú viltu gifta mig ambáttarsyni“. Egill segir henni frá móðurætt Ólafs, að hann sé dóttursonur Mýrkjartans Írakonungs, sé betur ættaður í móðurætt en föðurætt og væri þó föðurættin fullboðleg.

Ekki féllst Þorgerður á þetta.

Daginn eftir kemur Egill til Höskulds og spyr Höskuldur hvernig samtalið um bónorðið hafi farið. Egill segir honum það.

Eftir að Egill er farinn kemur Ólafur til Höskulds og spyr hvernig bónorðsmál hafa farið og segir Höskuldur þau ganga illa. Ólafur minnir föður sinn á að honum mundi illa líka það að fá svívirðingu af þessu bónorði og að hann hafi fengið að ráða því að það yrði borið upp. Nú myndi Ólafur hins vegar ráða því að það skyldi ekki falla niður og lagði til að ganga strax á fund Egils.

Ólafur var í skarlatsklæðum26 sem Haraldur Noregskonungur hafði gefið honum. Hann hafði gullroðinn hjálm á höfði og sverðið sem Mýrkjartan konungur hafði gefið honum í hendi sér. Þegar feðgarnir koma til Egils tekur hann vel á móti þeim. Höskuldur sest hjá Agli en Ólafur litaðist um.

Ólafur sá að kona sat á palli í búðinniI27 og þóttist vita að að það væri Þorgerður. Ólafur sest hjá henni og segir svo: „Mun þér þykja djarfur gerast ambáttarsonurinn, er hann þorir að sitja hér og tala við þig.“ Þorgerður svarar og telur hanna hafa gert meiri afreksverk en að tala við konur.

Ólafur talar við Þorgerði

Ólafur og Þorgerður tala saman allan þann dag og ekki heyrðu menn um hvað þau töluðu. Áður en þau skildust að kölluðu þau á Egil og Höskuld. Var þá aftur farið að ræða um bónorðið en nú vill Þorgerður láta föður sinn ráða. Þá var málið auðsótt28 og var ákveðið að halda brúðkaup þeirra Ólafs og Þorgerðar næsta sumar. Brúðkaupsveislan var stórfengleg og voru gestir leystir út með gjöfum. Þá gaf Ólafur Agli sverðið góða sem Mýrkjartan hafði gefið honum og varð Egill léttur á brún við gjöfina29.

7. Kjartan og Bolli

Vorið eftir að Ólafur og Þorgerður giftust tóku þau við búi á Goddastöðum. En skömmu seinna keypti Ólafur jörð sem hafði lagst í eyði vegna draugagangs. Þar var fallegt land og gott til búskapar, miklar laxveiðar og skógur. Ólafur byggði þar nýjan bæ.

Ólafur kallaði bæ sinn Hjarðarholt og þar bjuggu Þorgerður góðu búi og var Ólafur manna vinsælastur.

Höskuldur átti tvo syni með Jórunni konu sinni, Þorleik og Bárð. Þegar Höskuldur var orðinn gamall veiktist hann og þóttist vita að hann myndi fljótt deyja úr veikindum. Hann kallaði Þorleik og Bárð til sín og sagðist vilja skipta arfi sínum. Á þessum tíma voru lög um að synir sem fæddir voru í hjónaband fengu allan arf eftir föður sinn. Þorleikur og Bárður áttu því einir að erfa Höskuld en Höskuldur vildi að þeir leyfðu Ólafi fá arf eins og þeir, þó hann væri fæddur utan hjónabands. Bárður tók því vel en Þorleikur ekki og sagði Ólaf nógu auðugan fyrir.

Þá sagðist Höskuldur að minnsta kosti mega gera það sem leyft væri í lögum, það er að hann gæfi Ólafi tólf aura. Þorleikur hélt að hann væri að tala um tólf aura silfurs og féllst á það, enda var það löglegt. Hins vegar lét Höskuldur taka gullhring og sverð sem hvort tveggja var jafngilt tólf aurum30 af gulli og gaf Ólafi syni sínum.

Þorleiki fannst faðir sinn hafa svikið sig. En Ólafur neitaði að láta hann fá hringinn eða sverðið, því að Þorleikur hefði leyft það í votta viðurvist31 að hann fengi tólf aura. Eftir þetta andaðist32 Höskuldur.

Eftir dauða Höskulds kom Ólafur að máli við Þorleik og vildi sættast við hann. Ólafur bauðst til þess að fóstra son Þorleiks en sá er kallaður minni maður sem fóstrar börn annarra.

Þorleikur tók þessari sáttartilraun Ólafs vel og úr varð að Bolli sonur Þorleiks fór í fóstur að Hjarðarholti þriggja vetra gamall. Þorgerður, kona Ólafs, tók vel við Bolla og unnu þau Ólafur honum ekki minna en sínum börnum33. Ólafur og Þorgerður eignuðust dóttur sem var nefnd Þuríður. Síðan eignuðust þau son sem var gefið nafnið Kjartan í höfuðið á Mýrkjartani, langaafa sínum.

Þegar Kjartan óx upp þótti hann allra manna fríðastur. Hann var laglegur og ljós yfirlitum. Hann hafði mikið og fagurt hár sem var eins og silki, var stór maður og sterkur, rétt eins og Egill móðurfaðir (afi) hans hafði verið. Hann var líka góður vígamaður34, hagur35 og allra manna best syndur og vel fær í öllum íþróttum.

Bolli Þorleiksson var líka efnilegur maður og gekk Kjartani næst í öllum íþróttum, fríður og mikill skartsmaður36.

Kjartan og Bolli voru jafngamlir og urðu mikilir vinir.

8. Sverðið Fótbítur

Þegar Ólafur og Þorgerður höðu búið lengi í Hjarðarholti vildi Ólafur fara til útlanda. Þorgerður var ekki alsátt með það en Ólafur sagðist vilja ráða. Hann keypti skip og sigldi til Noregs. Þar bjó hann hjá manni sem hét Geirmundur. Geirmundur var mikill víkingur og ekki vinsæll. Um veturinn sagði Ólafur Geirmundi að hann vildi verða sér úti um timbur fyrir nýjan skála í Hjarðarholti. Geirmundur sagði að Hákon jarl, sem þá réði yfir Noregi, ætti besta skóg í landinu og mundi taka vel við Ólafi því að hann væri af stórum ættum.

Ólafur fór til jarls og fékk að höggva tré eins og hann vildi. En þegar hann kom til baka til Geirmundar hafði Geirmundur ákveðið að koma með honum til Íslands og hafði þegar fært allar sínar eigur á skip Ólafs.

Ólafur var ekki alsáttur með það en leyfði Geirmundi þó koma með til Íslands og bauð Geirmundi að búa hjá sér. Geirmundur átti gott sverð með hjöltum37 úr rostungstönn. Þetta sverð kallaði hann Fótbít og var hann ávallt með sverðið með sér.

Geirmundur hafði ekki verið lengi í Hjarðarholti þegar hann bað Þuríðar, dóttur Ólafs og Þorgerðar. Svo fór að þau gengu að eiga hvort annað en kom þó ekki vel saman. Þuríður og Geirmundur bjuggu saman í þrjú ár en þá vildi hann fara til baka til Noregs. Hann sagði Þuríði að vera eftir með eins árs dóttur þeirra sem hét Gróa. Geirmundur vildi ekki skilja neitt fé eftir í meðgjöf38. Þetta líkaði Þuríði og Þorgerði illa en Ólafur var sáttfús og vildi fallast á að barnið yrði eftir.

Geirmundur hafði áætlað að sigla til Noregs en áður en hann kemst frá Íslandi tók Þuríður til sinna ráða og fékk með sér húskarla39 Ólafs til að róa með sig og Gróu, dóttur sína, að skipi Geirmundar. Þetta gerðist snemma morguns svo allir voru sofandi. Þuríður bað húskarlana að róa að skipi Geirmundar og bora göt í það svo að Geirmundur myndi ekki sleppa frá þeim ef svo færi að hann reyndi að komast frá landi. Þar næst fór Þuríður um borð í skipið með Gróu með sér og gekk þar sem Geirmundur svaf, setti barnið í svefnpokann hjá honum og tók sverðið Fótbót sem lá hjá honum.

Stúlkubarnið fór að gráta og við það vaknar Geirmundur. Hann spratt upp og þreifaði eftir sverðinu en fann það ekki. Geirmundur sér Þuríði og föruneyti hennar fara á brott og kallar Geirmundur til Þuríðar og biður hana um að skila sverðinu og taka við stúlkunni. Hún neitar því.

Geirmundur segir þá við Þuríði að sverðið muni verða þeim manni að bana sem mestur er skaði að. Geirmundur leggur því nokkurs konar álög á sverðið en Þuríður kippir sér lítið upp við það. Geirmundur og öll hans áhöfn farast40 þegar að Noregslandi er komið. Þuríður fer heim í Hjarðarholt og gefur Bolla Fótbít og bar Bolli sverðið lengi.

Sverðið Fótbítur

Seinna giftist Þuríður manni sem hét Guðmundur Sölmundarson og bjó í ásbjarnarnesi norður í Víðidal í Húnaþingi.

9. Draumar Guðrúnar Ósvífursdóttur

Í Sælingsdal í Dölum bjuggu hjón sem hétu Ósvífur og Þórdís. Þau áttu mörg börn en elst þeirra var stúlka sem hét Guðrún. Hún var falleg og skjartgjörn41 og kunni vel að koma fyrir sig orði.

Einsu sinni, þegar Guðrún var þrettán eða fjórtán ára gömul, hitti hún mann við Snælingsdalslaud sem hét Gestur Oddleifsson. Hann var talinn vitur maður og bað Guðrún hann um að ráða í fjóra einkennilega drauma sem hana hafði dreymt um veturinn. Gestur bað hana að segja draumana.

Fyrsta draumnum lýsti Guðrún sem svo að hún væri úti við læk með krókfald42 á höfðinu. Guðrúnu þótti hann fara sér illa og vildi breyta honum en margir töluðu um að hún skyldi ekki gera það. Guðrún hlýddi því ekki og kastaði honum út í lækinn. Var sá draumur ekki lengri.

Öðrum draumnum lýsti Guðrún sem svo að hún væri stödd við vatn og upplifði silfurhring vera á hönd sinni sem hún þóttist eiga. Henni þótti hringurinn mikil gersemi og ætlaði sér að eiga hann lengi, en þegar hún átti sís von á því rann hringurinn af hendinni og í vatnið. Guðrún sá hringinn aldrei aftur og var sá draumur ekki lengri.

Þá lýsti Guðrún þriðja draumnum sem svo að hún hefði gullhring á hendi sér sem hún þóttist eiga og bætti fyrir tapið á silfurhringnum. Hins vegar, þegar Guðrún studdi sig með hendinni við stein brotnaði gullhringurinn í tvennt og fór að dreyra43 úr honum. Guðrún hugsaði með sér að mögulega væri hringurinn óskemmdur ef hún hefði passað sig betur. Var sá draumur ekki lengri.

Að lokum lýsti Guðrún fjórða draumnum en þar hafði hún hjálm úr gulli á höfði sér. Henni þótti hjálmurinn þó nokkuð þungur og hallaðist höfuðið undan þunganum. Guðrún hafði ekki hugsað sér að kenna hjálminum um þungan og vildi sannarlega ekki losa sig við hann. En þegar Guðrún var á ferð um Hvammsfjörð rann hjálmurinn af höfði hennar og út í fjörðinn. Var sá draumur ekki lengri.

Gestur hófst handa við að ráða í draumana og sagði þá alla þýða það sama. Hún myndi eignast fjóra menn. Þann fyrsta myndi hún skilja við, því hún kastaði faldinum í vatnið. Silfurhringurinn táknaði mann sem mundi drukkna og gullhringurinn mann sem yrði veginn með vopnum44. Gestur sagði að fjórði maður hennar yrði mestur höfðingi þeirra allra og passa hana vel en þar sem hjálmurinn steyptist45 út í Hvammsfjörð, mundi fjórði maður hennar drukkna þar.

Guðrún þakkaði Gesti fyrir að ráða draumana og sagði „Mikið er til að hyggja46, ef þetta á allt að ganga eftir.“

10. Fyrsta hjónaband Guðrúnar

Þegar Guðrún var fimmtán ára gömul, gifti Ósvífur hana manni sem hét Þorvaldur. Þorvaldur var auðugur maður en engin hetja og voru forsendur hjónabandsins að hann skyldi kaupa fyrir Guðrúnu allt það sem hún óskaði eftir. Hins vegar var Guðrún ekki spurð um hvað hana langaði og gladdi fyrirhugað hjónaband hana ekki. Þó lét hún undan og giftist Þorvaldi.

Guðrún og Þorvaldur bjuggu saman í Garpsdal og var Guðrún kröfuhörð og heimtaði að hann keypti handa sér alla bestu skartgripi sem hún vissi um á Vestfjörðum. Eitt skipti bað hún Þorvald að kaupa einhvern grip handa sér en þá sagði hann að hún kynni sér ekkert hóf og sló hana í andlitið.

Þá sagði Guðrún hann hafa gefið sér það sem konum þyki miklu skipta, en það er gott litaraft47.

Sama kvöld kom maður sem hét Þórður Ingunnarson að Garpsdal. Guðrún þekkti Þórð vel, en hann kom frá Hóli í Saurbæ. Hún spurði hann hvernig best væri að launa48 Þorvaldi þá svívirðingu að hafa slegið hana.

Þórður brosti og stakk upp á því að Guðrún saumaði skyrtu með flegnu hálsmáli eins og kvenskyrtur hefðu handa Þorvaldi. Síðan gæti hún skilið við hann af þeirri ástæðu að hann gengi í kvenmannsfötum. Þetta gerði Guðrún, skildi við Þorvald og fór heim að Laugum. Guðrún og Þorvaldur bjuggu aðeins saman í tvö ár.

11. Annað hjónaband Guðrúnar

Þórður Ingunnarson átti konu sem hét Auður og var kölluð Bróka-Auður af því að hún gekk stundum í karlmannsbuxum. Sumarið eftir að Guðrún skildi við Þorvald riðu þau Þórður og Guðrún saman til Alþingis. Einn daginn spurði Guðrún Þórð hvort það væri satt að kona hans væri jafnan í brókum.
Hann sagðist ekki hafa fundið til þess49

Guðrún spyr þá um hæl hvers vegna Auður sé þá kölluð Bróka-Auður en Þórður sagðist ekki vita til þess að hún hefði verið kölluð því nafni lengi. Guðrún sagði þá að því sem mestu máli skipti í þessu samhengi sé að hún hafi hlotið nafnbótina, sama hvort það sé nú eða fyrir löngu síðan eins og Þórður heldur fram.

Eftir þetta samtal þeirra var þingið haldið. Einn daginn á þinginu spurði Þórður Guðrúnu hvaða refsing lægi við því50 að kona gengi um í karlmannsfötum. Guðrún svaraði því að um sömu refsingu væri að ræða fyrir konur sem gengju í karlmannsfötum og karla sem gengju í kvenmannsfötum. Það væri skilnaðarsök51.

Þórður spurði Guðrúnu hvort henni fyndist ráðlegra52 að skilja við Bróka-Auði strax á þinginu eða bíða með það þangað til þau kæmu heim. Guðrún hvatti hann til þess að bíða ekki og svaraði með málshætt: „Aftans bíður óframs sök53.“

Þá spratt Þórður upp og gekk til Lögbergs og sagði skilið við Auði. Auður frétti ekki af skilnaðinum fyrr en eftir þingið.

Teikning af Lögbergi

Sama sumar bað Þórður Ingunnarson Guðrúnu um að giftast sér. Því tók hún vel og settust þau að á Laugum hjá foreldrum Guðrúnar en Auður bjó áfram á Hóli í Saurbæ.

Sumarið eftir var auður í seli54 í Hvammsdal en Laugamenn höfðu sel í Lambadal sem var þar skammt frá55. Auður bað smalamann56 sinn um njósna um hverjir væru heima á Laugum og hverjir væru í selinu.

Auður bað smalamanninn um að hafa tvo hesta tilbúna þegar fólk færi að sofa. Smalamaðurinn gerði það og eftir sólsetur riðu þau tvö (Auður og smalamaðurinn) af stað í átt að Laugum og var Auður þá vissulega í brókum. Auður gekk inn í skálann á Laugum þar sem Þórður svaf og vakti hann. Hún hafði sax57 í hendi sér og hjó með því til Þórðar og særði hann á annarri hendinni og bringunni. Svo gekk hún út, stökk á bak hesti sínum og reið heim í selið.

Auður heggur til Þórðar

Þórður ætlaði að spretta upp en gat það ekki, því hann mæddi bóðrás58. Ósvífur vaknaði við öll lætin og spurði hvað gengi á. Þórður sagðist hafa orðið fyrir áverka59 og spurði Ósvífur hvort hann vissi hver hefði gert honum mein.

Þórður sagðist halda að Auður hefði gert það og vildi Ósvífur elta Auði uppi. En Þórður vildi það ekki og sagði að Auður hefði ekki gert annað en það sem hún ætti rétt til.
Þórður lá negi í sárum. Bringusárin greru vel en höndin varð aldrei jafn góð og áður.

Vorið eftir að Þórður var særður fór hann vestur með menn með sér á báti til Alþingis. Móðir hans hafði lent í deilum við galdrafólk og stefndi Þórður þeim til dóms60 fyrir þjófnað og galdra. Á heimleiðinni lentu Þórður og menn hans í miklu óveðri og var talið víst að það væri galdrafólkið sem orsakaði það. Þórður gerði tilraun til þess að ná landi en þá hvolfdi bátnum og drukknuðu allir sem voru á honum. Guðrúnu þótti andlát Þórðar mjög leitt.

12. Guðrún og Kjartan

Fóstbræðurnir í Hjarðarholi, Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson, fóru oft í bað í Sælingsdalslaug. Oft hittist svo á að Guðrún var við laugina þegar þeir komu þangað og þótti Kjartani skemmtilegt að tala við hana. Kjartani þótti Guðrún bæði vitur og málsnjöll61. Var eftir því tekið að Guðrúnu og Kjartani ættu vel saman62.

Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson í Snælingsdalslaug. Kjartan og Guðrún Ósvífursdóttir eru að spjalla saman

Ólafur í Hjarðarholti og Ósvífur á Laugum voru vinir. Þó mislíkaði Ólafi að Kjartan færi oft að hitta Guðrúnu. Ólafur sagði raunar að engin kona væri samboðin Kjartani63. Hann taldi þó viss um að engin gæfa fylgdi of miklum samskiptum við Laugafólk.

Eitt sinn fóru Kjartan og Bolli í Borgarfjörð og hittu þar mann sem hét Kálfur Ásgeirsson. Hann var siglingamaður og átti skip í Gufuárósi. Kjartan bað Kálf um að selja sér hálft skipið og fara með sér til Noregs. Kálfur samþykkti það og riðu Kjartan og Bolli heim og sögðu Ólafi frá. Ólafi þótti Kjartan hafa ákveðið ferð sína í fullmiklum flýti en vildi þó ekki banna honum að fara.

Stuttu síðar fór Kjartan til Lauga og sagði Guðrúnu frá fyrirhugaðri ferð sinni til Noregs. Guðrúnu þótti, rétt eins og Ólafi, Kjartan hafa ákveðið þetta í flýti og fann Kjartan það á Guðrúnu að henni líkaði þessi ráðagerð ekki.

Kjartan spurði Guðrúnu hvað hann gæti gert fyrir hana í staðinn. Guðrún bað hann þá um að fá að koma með honum en Kjartan vildi það ekki. Hann sagði að bræður hennar væru of ungir en faðir hennar of gamall til að geta verið án hennar. Kjartan vildi því að Guðrún væri eftir heima og bað hana um að bíða eftir sér í þrjú ár. Guðrún sagðist ekki lofa neinu og skildu þau ósátt.
Síðan riðu Kjartan og Bolli til skips suður í Borgarfirði og hittu Kálf Ásgeirsson og sigldu til Noregs.

13. Í Noregi

Þegar Kjartan og Bolli komu til Noregs var Ólafur Tryggvason konungur yfir landinu. Hann var kristinn og fyrirskipaði64 öllum Norðmönnum að taka upp kristni í stað Ásatrúar65. Á þessum tíma voru margir íslenskir menn í Noregi sem höfðu ætlað að fara til Íslands um sumarið. En Ólafur konungur bannaði þeim að fara nema þeir tækju kristni. Því neituðu Íslendingarnir.

Eftir að Kjartan og Bolli komu til Noregs héldu Íslendingarnir þar fund saman og ákváðu í sameiningu að neita allir að gerast kristnir.

Dag einn um haustið í góðu veðri fóru menn úr bænum að synda í ánni Nið. Kjartan og Bolli sjá það og ákveða að slást í hópinn66. Þegar þeir koma að ánni sjá þeir að einn maður er augljóslega langbestur sundmaður. Kjartan spyr Bolla hvort hann vilji freista á að keppa við þann mann. Bolli segist ekki treysta sér til þess og svarar Kjartan honum: „Ekki veit ég hvert kapp þitt er nú komið og skal ég þá keppa við hann“.

Þar næst fleygir Kjartan sér í ána og að sundkappanum, færir hann í kaf67 og heldur honum niðri í langa stund. Þegar sundkappinn kemur upp svarar hann Kjartani í sömu mynt og heldur honum í kafi svo lengi að Kjartani stóð ekki á sama. Þegar þeir koma upp í annað skipti leið ekki löng stund áður en þeir fóru í kaf í þriðja sinn og þá í miklu lengur en áður. Þó koma þeir upp að lokum og synda til lands.

Þá spurði sundkappinn Kjartan hver hann væri og sagði Kjartan honum nafn sitt. Sundkappinn sagði Kjartan vera vel sundfæran og spurði hvort hann væri jafn álíka fær í öðrum íþróttum. Kjartan svarar honum og segir að honum þyki sú sundhæfni sem hann hafi sýnt rétt í þessu alls ekki vera merkileg né til að stæra sig af en þó hafi orð verið haft á því á Íslandi að hann væri fær íþróttamaður.

Sundkappinn furðar sig á því hvers vegna Kjartan spyr ekki hverra manna hann sé en Kjartan svarar honum um hálfgerðum skæting og segist ekki hirða um nafn hans68. Sundkappinn segir þá við Kjartan að hann skuli vita við hvern hann hafi sundið þreytt69 og segist vera Ólafur konungur Tryggvason.

Kjartan svarar engu og hefst handa við að labba í burtu. Hann var þó skikkjulaus og kallar konungur á hann og biður hann að bíða aðeins. Konungur tekur af herðum sér skikkju góða og gefur Kjartani, sagði að hann skyldi ekki ganga skikkjulaus til sinna manna. Kjartan þakkar konungi fyrir gjöfina og gengur til manna sinna og sýnir þeim skikkjuna. En menn hans voru ekki par sáttir og þóttu Kjartan hafa gengið á konungs vald70.

Íslendingar voru saman í Niðarrósi um veturinn. Dag einn hélt konungur fund í bænum og boðaði mönnum kristna trú. Menn úr Þrándarheimi, héraðinu í kringum Niðarós, voru þangað konir og sögðust frekar geta hugsað sér að berjast við konung en að taka upp kristni. Konungur svaraði því með yfirlýsingu um að hann hefði barist við meira ofurefli en þorpara úr Þrándarheimi71. Við það urðu margir hræddir og tóku upp kristni.

Um kvöldið sendi konungur menn til bústaðar Íslendinga til þess að hlera og komast að því um hvað þeir töluðu sín á milli. Menn konungs gerðu það og heyrðu Kjartan spyrja Bolla „hversu fús72 ert þú, frændi, til þess að taka upp kristni“. Bolli sagðist ekki fús til þess og taldi kristna trú veiklega trú. Kjartan spurði þá Bolla hvort hann hefði ekki skilið konung eins og hann sjálfur og á þá leið að konungur væri óbeint að hóta þeim sem ekki færu eftir fyrirskipunum hans til að ná fram hlýðni. Bolli sagðist hafa heyrt að þeir myndu sæta miklum afarkostum73 af konungi sem ekki vildu taka kristni74.

Kjartan segir þá að hann vilji „einskis manns nauðungarmaður vera75“ á meðan hann geti varist því með vopnum. Kjartan segir aukinheldur76 að honum þyki lítilmannlegt að vera tekinn sem lamb úr stekk77 eða melrakki78 úr gildru. Honum þyki hinn kosturinn vænni, ef hann skuli deyja að það verði þó úr því saga sem geymist í minni manna lengi.

Bolli spyr Kjartan hvað hann vilji gera og svarar Kjartan: „Ég ætla ekki að leyna því, ég vil brennan konunginn inni“. Það þykir Bolla ekki lítilmannlegt en hefur þó ekki mikla trú á því að úr verði. Bolli spáir því að konungur muni verða giftudrjúgur79 og hamingjumikill. Hann hafi menn sem gæti öryggi hans dag og nótt.

Þegar konungsmenn höfðu heyrt þetta fóru þeir í brott frá bústaði Íslendinga og sögðu konungi það sem þeir höfðu heyrt.

14. Kjartan og Bolli gerast konungsmenn

Morguninn eftir boðaði konungur Íslendinga á fund. Þar stóð hann upp og spurði þá hvort þeir vildu taka skírn. Íslendingarnir tóku lítið undir það. Konungur svara og segir að þeir taki þá kostinn sem muni verða verri fyrir þá og spyr „hverjum ykkar þótti besti kosturinn vera að brenna mig inni?“

Þá tekur Kjartan til máls: „Þú heldur sennilega að sá sem það sagði hafi ekki einurð80 til gangast við því, en hér máttu þann sjá sem taldi það besta kostinn.“

Konungur svarar Kjartani og segir að þar sem hann geti ekki vitað hvort nokkur alvara hafi verið í orðum Kjartans um að brenna hann inni og að hann hafi drengilega gengist við orðum sínum ætli hann ekki að taka hann að lífi. Enn fremur segir konungur að ef til vill muni Kjartan taka kristninni með meiri sæmd og alvöru en aðrir þar sem hann andmælir henni manna mest. Konungur líkur svo fundinum á því að segja að hver sá sem það kýs megi fara í friði og að hann hyggi ekki á að pynta Íslendingana til kristni þar sem Guð vilji eigi að nokkur maður komi nauðugur til hans.

Eftir fundinn eggjuðu81 margir kristnir menn konung til að neyða Kjartan og félaga til að taka kritsni. Við það varð konungur reiður og sagði: „Margir kristinr menn eru ekki jafn siðaðir og Kjartan og sveit hans og skal slíkra manna lengi bíða82“.

Um veturinn lét konungur gera kirkju í Niðarósi og var uppbyggingu hennar lokið um jólin. Kjartan sagði að það væri ágætis hugmynd að ganga að kirkjunni og sjá aðferðir kristinna manna. Margir tóku undir það og sögðu að það mundi vera mikil skemmtun. Úr varð og fór Kjartan með menn sína að kirkjunni og horfðu á hvað fór þar fram.

Kjartan og menn hans skoða kirkjuna um jólin

Þegar Íslendingarnir komu heim í bústað sinn ræddu þeir um hvernig þeim hefði litist á konunginn. Kjartan tekur til máls og segir: „Mér leist vel á konung þegar ég sá hann fyrst og grunaði að hann væri ágætismaður. Það mat mitt hefur haldist stöðugt síðan. En best leist mér á hann í dag.“ Sagðist Kjartan nú vilja taka kristni. Bolli tók vel undir það og bað Kjartan einan ráða.

Konungur frétti af þessu samtali Kjartans, Bolla og hinna Íslendinganna, þar sem hann hafði alltaf njósnara í bústöðum heiðinna manna. Fréttirnar glöddu konung og sagði Kjartan hafa sannað orðskviðinn83 „hátíðar eru til heilla bestar“.

Snemma morguninn eftir gekk konungur til kirkju og mætti þá Kjartani. Kjartan heilsaði konungi og sagðist eiga erindi við hann. Konungur sagðist hafa heyrt af því hvað hann vildi og voru Kjartan og allir hans menn skírðir til kristni. Þá gerðist Kjartan hirðmaður84 konungs og voru þeir Bolli hjá honum um veturinn.

15. Bolli fer til Íslands

Vorið eftir stakk konungur upp á því við Kjartan að hann færi til Íslands og boðaði þar kristni. Kjartan sagðist ekki vilja deila um trú við frændur sína og kaus heldur að vera með konungi. Hann hélt þar að auki að faðir hans og frændur85 yrðu líklegri til að verða að vilja konungs (þ.e. taka kristni) ef þeir vissu af honum hjá konungi. Þetta þótti konungi snjallt og sendi prest sinn sem hét Þangbrandur til Íslands til að snúa Íslendingum til kristni.

Þangbrandur skírði nokkra íslenska höfðingja til kristni, meðal annarra þá Gissur hvíta Teitsson og Hjalta Skeggjason. En miklu fleiri neituðu að taka kristninni og ráðgerðu86 að drepa Þangbrand og þá sem höfðu lagt honum lið. Fyrir vikið sneri Þangbrandur til baka til Noregs og sama ár komu þeir Gissur og Hjalti líka. Bauð konungur þeim að vera hjá sér og það þáðu þeir.

Sumarið eftir, þegar Kjartan og Bolli höfðu verið í þrjú ár í Noregi, sendi konungur Gissur og Hjalta til Íslands að boða mönnum trú. En konungur hélt fjórum ungum Íslendingum eftir hjá sér í Noregi sem gíslum. Þeir voru allir synir íslenskra höfðingja og þóttist konungur vita að feður þeirra yrðu líklegri til að taka kristni ef þeir vissu að sonum sínum í gíslningu í Noregi. Einn af þessum mönnum var Kjartan Ólafsson. En Bolli ákvað að fara til Íslands með Gissuri og Hjalta.

Áður en bolli lagði á stað úr Noregi fór hann að hitta Kjartan frænda sinn87. Bolli segir við Kjartan að hann mundi bíða með honum til næsta sumars ef hann héldi að Kjartan kæmi með honum þá. En Bolli þóttist vita að konungur myndi ekki vilja sjá Kjartan fara til baka og myndi reyna koma í veg fyrir það eftir fremstu getu. Enn fremur sagði Bolli að Kjartan hefði fátt jafn skemmtilegt að gera á Íslandi og hann hefði í Noregi, en Kjartan sat iðulega88 og talaði við Ingibjörgu systur konungs sem var talin allra kvenna fríðust í Noregi.

Kjartan bað Bolla að tala ekki svona og bað Bolla að skila kveðju til frænda sinna89 og vina.

Eftir spjall sitt við Kjartan sigldi Bolli með Gissuri og Hjalta til Íslands. Þeir komu í land í Vestmannaeyjum og fóru þaðan á Alþingi. Þar boðuðu Gissur og Hjalti kristna trú, og samþykktu Íslendingar þá að taka kristni. Á Alþingi hitti Bolli Ólaf páa, fóstra sinn, og fór með honum vestur í Hjarðarholt.

16. Bolli og Guðrún

Bolli hafði ekki verið lengi á Íslandi þegar hann hélt til Lauga í Sælingsdal að skemmta sér. Þar spruði Guðrún hann vandlega um Noregsferðina og um Kjartan. Bolli sagði að allt gott væri af Kjartani að frétta og að hann væri í hirð90 Ólafs konungs og þar meira metinn en nokkur annar maður. Bolli hélt áfram og sagði: „Það kæmi mér ekki á óvart þó hann kæmi ekki til Íslands aftur næstu árin“.

Guðrún spurði þá Bolla hvort eitthvað annað en vinátta Kjartans og Ólafs konungs valdi því að Bolla þyki ólíklegt að Kjartan komi brátt til Íslands. Bolli segir henni þá hvernig talað sé um vináttu Kjartans og Ingibjargar systur Ólafs konungs og að hann haldi að konungur mundi heldur kjósa að gifta Kjartan og Ingibjörgu en að láta hann lausan. Guðrún sagði þetta góðar fréttir: „Kjartan verður ekki sáttur nema hann fái góða konu“. Fleira sagði hún ekki en roðnaði og gekk í burtu.

Bolli var heima í Hjarðarholti um sumarið. Hann kom oft til Lauga og talaði við Guðrúnu. Eitt sinn spurði Bolli Guðrúnu hverju hún mundi svara ef hann bæði hennar91. Því svaraði Guðrún fljótt og sagði ekki til neins að ræða slík mál þar sem hún ætlaði sér engum manni að giftast á meðan Kjartan væri á lífi. Bolli svarar: „Þá held ég að þú munir þurfa bíða í nokkur ár mannlaus ef þú ætlar að bíða eftir Kjartani. Hann hefði getað beðið mig um að skila einhverju til þín, ef honum hefði þótt það skipta miklu máli.“

Guðrún og Bolli skiptust á orðum um þetta og voru ekki alveg sammála. Síðan fór Bolli heim.

Nokkru síðar kom Bolli að máli við Ólaf páa frænda sinn92 og sagðist vilja giftast konu. Ólafur sagði honum að flestum konum væri fullboðið að fá hann sem eiginmann en taldi hæpið að Bolli bæri þetta upp nema hafa einhverja hugmynd um hvaða konu hann vildi. Bolli sagðist þá vilja biðja Guðrúnar Ósvífursdóttur.

Ólafur segist ekki vilja eiga neinn hlut að því máli og sagði: „Þú ert jafn meðvitaður og ég, Bolli, hvernig og hvað talað var um kærleikann milli Kjartans og Guðrúnar“. Hins vegar sagðist Ólafur ekki ætla sér að leggjast á móti hjónabandi þeirra Guðrúnar, ef þeim Bolla og Ósvífri semdist um það.

Skömmu síðar hélt Bolli á stað til Lauga. Hann talaði við Ósvífur og bað um að fá að giftast Guðrúnu dóttur hans. Ósvífur sagðist ekkert hafa á móti því en tók fram að Guðrún væri ekkja og ætti sjálf að ráða sínum hjónabandsmálum.

Ósvífur fór þar næst til Guðrúnar og segir henni að Bolli Þorleiksson sé kominn og óski eftir að giftast henni. Guðrún segir föður sínum að Bolli hafi áður nefnt þetta við hana og að hún hefði svarað því neitandi og sé enn á sama máli.

Ósvífur segir þá við Guðrúnu að slík afstaða sé ekki til marks um að hugsa fram á við heldur til marks um ofsa. Og þar sem Ósvífur tók svona í málið, þá neitaði Guðrún ekki að giftast Bolla en var þó hin þverasta í öllu93. Synir Ósvífurs hvöttu Guðrúnu mjög til hjónabandsins og þótti mikill fengur í Bolla og úr varð að Guðrún og Bolli giftust. Brúðkaupið var haldið á Laugum um haustið og var Bolli á Laugum um veturinn.

17. Kjartan kemur til Íslands

Næsta sumar fréttist til Noregs að Ísland væri orðið alkristið94. Ólafur konungur var glaður við þær fréttir og leyfði öllum Íslendingum sem vildu að fara heim til Íslands. Kjartan þakkaði konungi fyrir og sagðist ætla þangað.

Þá sagði Ólafur að orð hans væru ekki aftur tekin, en þó hefði hann ætlað að beina orðum sínum fremur til annarra manna en hans. Kjartan hefði verið meiri vinur en gísl og helst vildi Ólafur ekki missa hann, í Noregi ætti hann kost á konu sem væri engri lík95.

Kjartan sagðist samt vilja fara til Íslands og skömmu síðar bjuggu þeir Kálfur Ásgeirsson skip sitt til Íslandsferðar.

Þegar skipið var tilbúið fyrir ferðalagið gekk Kjartan á fund Ingibjargar konungssystur. Hún fagnaði honum og bað hann um að setjast hjá sér. Kjartan segir henni að hann sé á leið til Íslands og segir Ingibjörg að hún haldi að hann hafi ráðið því einn, fremur en að menn hafi hvatt hann til að fara.

Þá gengur Ingibjörg að kistu sem stendur þar hjá henni og tekur upp úr henni hvítan gullofin höfuðdúk, sem kallaður var motur, og gefur Kjartani. Ingibjörg sagði Kjartani að gefa Guðrúnu Ósvífursdóttur moturinn í brúðkaupsgjöf og að hún geti ekki hugsað sér að fólk haldi að Kjartan hafi verið að tala við konu í Noregi sem ekki sé mikils virði96.

Ingibjörg gefur Kjartani moturinn

Kjartan stóð upp og faðmaði Ingibjörgu. Var það talið vitað mál að þeim þætti leitt að skiljast að.

Kjartan fór þar næst til Ólafs konungs og sagði honum að hann væri ferðbúinn. Konungur fygldi honum til skips, gaf honum fagurt sverð og sagði: „Ég geri ekki ráð fyrir því að þú verðir vopnbitinn97 maður, ef þú hefur þetta sverð.“ Kjartan þakkaði konungi fyrir og fór síðan út á skip sitt.

Kjartan og Kálfur komu skipinu í Borgarfjörð. Ólafur faðir Kjartans og Þuríður systir hans fóru þangað og tóku á móti honum. Hrefna, systir Kálfs, kom þangað líka. Nú frétti Kjartan að þau Guðrún og Bolli væru gift en virtist ekki kippti sér ekki upp við fréttirnar.

Kjartan bauð Þuríði að velja sér úr varningi98 sínum það sem hún vildi og það sama sagði Kálfur við Hrefnu. Einn daginn var hvasst og hlupu Kjartan og Kálfur út að festa skip sitt. Á meðan voru þær Þuríður og Hrefna að skoða kistu sem Kjartan og Kálfur höfðu komið með sér og fundu moturinn. Þeim fannst hann mikil gersemi99 og setti Hrefna hann á höfuðið.

Á leiðinni til baka frá skipinu gekk Kálfur á undan og sá Hrefnu með moturinn á höfðinu. Honum brá og bað hana um að taka hann ofan eins fljótt og hún gæti, því að moturinn væri eini hluturinn í kistunni sem Kjartan ætti einn. En Kjartan horfði lengi á Hrefnu og sagði: „Mér þykir moturinn fara þér vel, Hrefna, og líklega er best að ég eigi allt saman, bæði motur og mey100.“

Hrefna sagðist ekki hafa haldið að Kjartan vildi giftast í bráð. Kjartan svarar og segir það ekki skipta máli hvaða konu hann ætti en ekki vildi hann vera vonbiðill101 neinnar konu. Hrefna tekur nú ofan moturinn og lætur Kjartan fá hann en hann setur hann í kistuna. Skömmu seinna fara allir heim til sín og settist Kjartan að í Hjarðarholti hjá föður sínum.

18. Haustboð á Laugum

Guðrún Ósvífursdóttir frétti að Kjartan væri komin heim og sagði við Bolla að hann hefði ekki sagt sér allt satt um Kjartan. Bolli sagðist hafa sagt henni það sem hann visst sannast102. Guðrún svaraði hafði fátt að segja við Bolla og fundu menn fyrir því að henni líkaði þetta allt saman illa og gerðu flestir ráð fyrir því að hún sæi mikið eftir Kjartani.

Ólafur í Hjarðarholti og Ósvífur á Laugum voru vanir að skiptast á um að halda haustboð hvor fyrir annan. Þetta haust átti Ósvífur að halda boðið. Ólafur gerði sig tilbúinn til ferðarinnar og bað Kjartan um að koma með sér. Kjartan sagðist vilja vera heima og hugsa um búið en Ólafur hvatti hann til að fara, sagði að þeir frændur mundu brátt sættast ef þeir hittust.

Kjartan lét undan og gerði sig tilbúinn til ferðarinnar. Hann tók upp rauð skarlatsklæði sem Ólafur konungur hafði gefið honum og fór í, hafði með sér sverðið frá konungi, setti á sig gullroðinn hjálm á höfðinu og rauðan skjöld með krossmarki á. Allir menn Kjartans voru í litklæðum, yfir tuttugu saman.

Bolli gekk á móti þeim Ólafi og fagnaði þeim vel. Hann gekk til Kjartans og kyssti hann. Kjartan tók undir kveðu hans og eftir það var þeim fyglt inn. Bolli var hinn kátasti103 og tók Ólafur því vel en Kjartan var fálátur104.

Bolli átti fjögur afburða góð hross, hvítan stóðhest105 með rauðum eyrum og toppi og þrjár hryssur í sama lit. Eftir veisluna vildi Bolli gefa Kjartani hrossin. En Kjartan sagðist ekki vera neinn hestamaður og vildi ekki þiggja hrossin. Ólafur bað hann um að taka við hrossunum, þau væru mjög virðulegar gjafir. En Kjartan þvertók fyrir það og sagði nei. Skildust þeir eftir það með engri blíðu og Hjarðhyltingar fóru heim.

19. Kjartan og Hrefna

Kjartan var heima í Hjarðarholti um veturinn og var heldur fálátur106. Eftir jól fór hann að Ásbjarnarnesi í Víðidal að heimsækja Þuríði systur sína. Í sömu sveit bjuggu Kálfur Ásgeirsson og Hrefna systir hans.

Dag einn kom Þuríður til Kjartans og sagðist hafa heyrt af því að hann væri heldur hljóður. Hún ráðlagði honum að kvongast107 og ganga að eiga Hrefnu Ásgeirsdóttur, eins og hann hefði talað um sumarið áður. Kjartan tók vel undir það. Kjartan fór þar næst að hitta Hrefnu og áttu þau langt og gott spjall.

Daginn eftir voru menn sendir til að bjóða Ásgeiri, föður Hrefnu, að Ásbjarnarnesi. Þar var málið rætt og hvatti Kálfur til þess að úr brúðkaupinu yrði. Hrefna var ekki ósátt við að giftast Kjartani og bað föður sinn að ráða. Var það í framhaldinu síðan ákveðið að þau skuli giftast og vildi Kjartan ekki annað en brúðkaupið yrði haldið í Hjarðarholti. Þá var ákveðið að halda brúðkaupið næsta sumar og þegar Kjartan kom heim var hann sjáanlega mun kátari en áður.

Í brúðkaupinu gaf Kjartan Hrefnu moturinn og hafði enginn maður séð annan eins grip. Kjartan var þá allra manna kátastur og skemmti mönnum með því að segja frá ferðum sínum og vist108 sinni hjá Ólafi konungi. Eftir vikulanga veislu fóru gestirnir heim en Hrefna varð eftir í Hjarðarholti.

20. Gripahvörf

Um haustið var komið að Ólafi að halda haustboð. Þangað komu Ósvífur, Guðrún og Bolli og synir Ósvífurs.
Morguninn eftir að þau komu var kona ein í skálanum í Hjarðarholti að ræða um hvernig ætti að skipa konum í sæti i veislunni109. Konan var stödd við rúmið hans Kjartans þegar um þetta var rætt. Hann var að klæða sig og steypti yfir sig rauðum skarlatskyrtli. Kjartan svaraði konunni og sagði: „Hrefna skal sitja í öndvegi110 og vera mest metin að öllu leyti á meðan ég er á lífi.“ Áður fyrr hafði Guðrún alltaf setið í öndvegi í Hjarðarholti.

Guðrún heyrði svar Kjartans um sætaskipan og roðnaði en svaraði engu. Daginn eftir stakk Guðrún upp á því við Hrefnu að hún setti upp moturinn og sýndi mönnum gripinn, en moturinn var talinn besti gripur sem sem komið hefði til Íslands. Kjartan heyrði þetta og var fljótari að svara en Hrefna. Hann sagði: „Hrefna mun ekki reyna auka virði sitt með monti við þetta borð, því að mikilvægara þykir mér að hún eigi þessa mestu gersemi en að gestir hafi augnagaman af.“

Daginn eftir, þegar aðrir heyrðu ekki til, bað Guðrún Hrefnu um að sýna sér moturinn. Hún sótti moturinn í kistuna sína og Guðrún skoðaði hann en hafði engin orð um hann111.

Haustboð Ólafs stóð í viku. Þegar gestirnir voru að gera sig tilbúna til þess að leggja af stað hjálpaði Kjartan þeim að búa hesta sína til ferðarinnar. Kjartan hafði þó sverð sitt frá Ólafi konungi ekki með sér, en hann var þó vanur að hafa það með sér hvert sem hann fór. Þegar allir voru klárir og Kjartan kom til baka sá hann að sverðið var horfið úr skálanum. Hann gekk til föður síns og sagði honum frá þessu.

Ólafur bað hann um að segja engum frá því sem hafði skeð en sendi njósnarmenn með öllum gestunum. Tveir heimamenn í Hjarðarholti hétu báðir Án. Annar þeirra var kallaður Án hinn hvíti en hinn Án hinn svarti.
Án hinn hvíti var sendur með fólkinu frá Laugum.

Á leiðinni til Lauga tók Án eftir því að það var stansað og að einn sonur Ósvífurs hvarf frá hópnum í stutta stund og kom svo aftur. Án fylgdi þeim nokkru lengra en sneri svo við. Um nóttina hafði fallið snjóföl112. Þegar Án kom að staðnum þar sem sonur Ósvífurs hafði horfið rakti hann spor hans að keldu113 nokkurri. Þar þreifaði hann niður og fann sverðið í kafi. Hann tók sverðið upp og lét Kjartan hafa það.

Án hinn hvíti nær í sverðið í keldunni

Kjartan tók sverðið og lagði það niður í kistu en umgerðin um sverðið fannst aldrei. Kjartanni þótti eftir þetta minna vænt um sverðið en áður.

Um veturinn bauð Ósvífur til veislu á Laugum. Ólafur bað Kjartan að fara þangað með sér. Kjartan var tregur til114 en lofaði þó að fara. Hrefna fór líka og ætlaði að skilja moturinn eftir heima. Þá spurði Þorgerður húsfreyja: „Hvenær ætlar þú eiginlega að setja slíkan ágætisgrip og moturinn er upp ef að hann á bara að liggja í kistu þegar þú ferð í veislur?“
Hrefna svaraði: „Það er um það talað að ég eigi á fáum stöðum jafn marga sem öfunda mig og á Laugum.“ Þorgerður gerði lítið úr því að fólk á Laugum öfundaði hana og úr varð að Hrefna tók moturinn með sér.

Þegar Hjarðhyltingar komu til Lauga var tekið við fötum þeirra Þorgerðar og Hrefnu. En daginn eftir leitar Hrefna að motrinum og finnur hann ekki. Guðrún sagði að líklega hefði Hrefna skilið moturinn eftir heima eða týnt honum á leiðinni.

Hrefna fór til Kjartans og sagði honum að moturinn væri horfinn. Hann sagði föður sínum en Ólafur bað hann um að láta sem ekkert væri og að hann myndi reyna komast að sannleikanum. Kjartan svaraði að það kæmi honum ekki á óvart þótt Ólafur vildi sem minnst úr þessu gera og sagðist þó ekki vita hvort hann nennti að fara sífellt halloka115 fyrir Laugamönnum.

Þegar Kjartan var að undirbúa sig til þes að fara burt út veislunni sneri hann sér að Bolla og sagðist halda að gripahvörfin væru af völdum hans manna, eða með öðrum orðum mönnum Bolla að kenna. Í hasut hefði sverð hans verið tekið og umgerðin aldrei fundist; nú væri horfinn annar verðmætur gripur og vildi Kjartan fá hvort tvegga116 aftur.

Bolli neitaði fyrir að hafa nokkuð með hvarf gripanna að gera og sagðist hafa átt von á öðru af Kjartani en að hann sakaði hann um stuld117. Kjartan gaf þá í skyn að þeir sem hefðu raunverulega verið á bakvið þjófnaðinn væru menn sem Bolli gæti haft áhrif á ef hann vildi það. Kjartan sagðist of lengi þolað fjandskap118 þeirra Laugamanna, og mundi ekki gera það miklu lengur.

Þá svarar Guðrún: „Þó að það gæti verið rétt sem þú segir, að þeir menn sem hér eru hafi valdið því að moturinn hafi horfið, þá finnst mér það líta út sem svo að þeir hafi aðeins tekið það sem þeir töldu sig sjálfa eiga. Þið getið trúað því sem þið viljið um hvarf motursins en ekki þykkir mér verra þó Hrefna hafi litla búningsbót119 af honum héðan í frá.“

Eftir þetta skilja þau ósátt og Hjarðhyltingar fara heim. Eftir þetta hættu þeir Ólafur og Ósvífur að bjóða hvor öðrum heim í veislur.
Moturinn fannst aldrei. Margir höfðu það fyrir satt120 að að bróðir Guðrúnar hefði brennt hann í eldi að ráði Guðrúnar121.

21. För Kjartans að Laugum

Eftir jól um veturinn safnaði Kjartan sextíu mönnum saman í leiðangur. Hann sagði Ólafi föður sínum ekki hvert hann og mennirnir ætluðu og Ólafur spurði hann ekki um það. Kjartan tók tjöld og aðrar vistir122 með sér og hélt á stað til Lauga. Þegar þangað var komið bað hann suma menn um að gæta hestanna og aðra að reista tjöld.

Á þessum tíma (þ.e. þegar sagan gerist) var það venja að salerni123 væru í sérstökum húsum sem ekki væri hægt að ganga inn í úr bæjarhúsum og þannig var aðstaðan á Laugum.

Kjartan lét loka öllum dyrum á bæjarhúsunum á Laugum og bannaði öllum mönnum útgöngu. Það stóð yfir í þrjá sólahringa. Eftir það fór Kjartan heim í Hjarðarholt og förunautar124 hans hver til síns heimilis.

Ólafur var ósáttur við ferðina þegar hann heyrði hvernig hafði farið. En Þorgerður sagði að Laugamenn hefðu átt þessa svívirðingu skilið og jafnvel meiri.
Hrefna spurði Kjartan hvort hann hefði spjallað við einhvern Laugamann í ferðinni.
Kjartan sagði að lítið hefði verið um spjall en hefði þó átt nokkur orð við Bolla.
Hrefna sagði þá við Kjartan að hún væri viss um að hann hefði talað við Guðrúnu. En fremur sagði Hrefna hafa heyrt að Guðrún hafi haft moturinn á höfði sér, montað sig af gripnum og að hann hafi farið henni einkar vel.

Kjartan roðnaði en svaraði Hrefnu: „Ég sá ekki það sem þú segir frá, Hrefna, en þó er það víst að Guðrún mundi ekki þurfa að monta sig með motri til að vera glæsilegri en allar aðrar konur“.
Þá hætti Hrefna þessu tali.

Laugamönnum líkaði svívirðing Kjartans illa og þótti þetta miklu meiri svívirðing og verri en ef Kjartan hefði drepið einn eða tvo menn þeirra. Synir Ósvífurs voru óðastir en Bolli dró heldur úr. Guðrún hafði fátt að segja um atvikið en menn fundu á orðum hennar og hvernig hún bar sig að henni líkaði þetta að minnsta kosti jafn illa og öðrum.

Eftir þetta var fullur fjandskapur milli Laugamanna og Hjarðhyltinga125.

22. Jarðarkaup

Í Sælingsdal, nokkurn veginn beint á móti Laugum, er bær sem heitir Sælingsdalstunga eða Tunga. Þar bjó maður sem hét Þórarinn. Hann var vinur beggja, Laugamanna og Hjarðhyltinga. Honum líkaði því illa fjandskapur þeirra og ákvað hann að selja jörð sína og flytjast í burtu. Bolli vildi kaupa jörðina því að Laugamenn höfðu lítið land en fjölda búfjár.

Þau Bolli og Guðrún riðu í Tungu og sömdu um að kaupa jörðina af Þórarni. En ekki voru nógu margir vottar viðstaddir til að samningur þeirra væri löglegur. Kjartan Ólafsson heyrir af þessu og fór strax með tólf menn með sér að Sælingsdalstungu. Þangað var hann kominn snemma dags.

Þórarinn fagnaði honum og bauð honum að vera þar. Kjartan sagði honum að hann ætlaði heim aftur um kvöldið en sagðist eiga erindi við Þórarin. Þórarinn spurði hvað það væri. Kjartan svarar: „Ég er hingað kominn til þess að ræða um landkaup Bolla, því að mér er á móti skapi126 ef þú selur þetta land til Bolla og Guðrúnar.”

Þórarinn sagði að sér hentaði vel að selja þeim landið, „því bæði er verðið sem ég fæ fyrir það ríflegt127 og borgað fljótt“.

Kjartan mælti: „Ekki muntu þurfa að finna fyrir því á nokkurn hátt þó þú seljir Bolla ekki landið, því að ég mun kaupa það á sama verði. Og ekki mun duga til fyrir þig að andmæla þessu, því að ég vil mestu ráða í þessu héraði og gera meira fyrir fólkið í nálægð en Laugamenn myndu eftir sinni hentusemi gera.“

Þórarinn svarar: „Það vil ég helst af öllu að kaupin sem ég og Bolli sömdum um fái að standa.“
Kjartan mælti: „Ekki kalla ég það landkaup sem ekki er vottum bundið. Gerðu nú annað hvort, að selja mér strax landið á sama verði og þú hefur fallist á við Bolla, eða búðu sjálfur á landi þínu.“
Þórarinn kaus128 að selja Kjartani landið og voru vottar að þessu kaupi, enda hafði Kjartan séð til þess að taka menn með sér til þess.

Þetta fréttist um alla Breiðafjarðardali og strax um kvöldið fréttist það til Lauga. Guðrún sagði við Bolla að Kjartan gerði honum með þessu tvo kosti129, enn harðari en hann gerði Þórarni. Annað hvort yrði Bolli að flytja úr héraðinu með litlum sóma eða vera djarfari við Kjartan en hann hafði áður verið. Bolli svaraði engu og gekk þegar í burtu.

23. Kjartan fer vestur í Saurbæ

Veturinn eftir þetta, um páska, fór Kjartan að heiman og með honum fór Án hinn svarti. Þeir fara í Sælingsdalstungu og bað Kjartan Þórarin að koma með sér vestur í Saurbæ. Þar bjuggu menn sem skulduðu Kjartani peninga og ætlaði Kjartan að láta hluta af þeirri skuld ganga upp í verðið á jörðinni sem hann hafði keypt.

Á meðan Kjartan var í Tungu kom þangað kona sem átti heima á Laugum og var kölluð Þórhalla málga130. Hún spyr Kjartan hvert hann ætli en Kjartan segir henni að hann ætli vestur til Saurbæjar.
Hún spyr hann hvaða leið hann ætli að fara.
Kjartan segir henni að hann ætli að fara vestur Sælingsdal en Svínadal til baka.
Hún spyr hann þá hversu lengi hann ætli að vera.
Kjartan segir henni þá að líklega muni hann koma til baka næsta fimmtudag.
Þórhalla bað þá Kjartan um að koma við fyrir sig í Hvítadal og sækja vaðmál131 sem bóndinn þar hefði lofað henni. Kjartan sagðist gera það.

Þórhalla málga kom heim til Lauga um kvöldið og sagðist hafa hitt Kjartan Ólafsson í Tungu. Synir Ósvífurs spurðu hana hvað hún vissi um ferðir Kjartans og sagði hún þeim það. Hún bætti við að henni hefði aldrei séð Kjartan eins hraustlegan og sterkan og nú. Enn bætti Þórhalla við og sagði augljóst af samskiptum hennar við Kjartan að honum þætti mjög gaman að tala um landkaup sín í Tungu.

Guðrún sagði að Kjartan gæti gert allt sem honum sýndist, því að enginn þyrði að mæta honum. Bolli lét sem hann heyrði það ekki, eins og hann var vanur alltaf þegar Kjartani var hallmælt132; Bolli hafði tamið sér að annað hvort þaga eða andmæla slíku tali.

Á miðvikudag eftir páska sat Kjartan vestur á Hóli í Saurbæ. Þar bjó Bróka-Auður sú sem áður var gift Þórði Ingunnarsyni. Nóttina eftir lét Án svarti, fylgdarmaður Kjartans illa í svefni og var vakinn. Hann var spurður um hvað hann hefði dreymt og sagði Án hinn svarti að í draumnum hefði kona komið upp að honum með stóran hníf í hendi. Hún hefði rist á honum kviðinn, tekið burt innyflin og sett hrís í staðinn.

Þeir Kjartan hlógu að draumnum og sögðu að hann skyldi heita Án hrísmagi.

Bróka-Auði stóð ekki á sama eftir að hafa heyrt drauminn og ráðlagði að annað hvort skyldi Kjartan vera lengur í Saurbæ en hann hafði áætlað eða þá fara með fleiri menn með sér til baka.

Kjartan gerði grín að þessum áhyggjum og sagðist ekki taka mikið mark á því sem Án hrísmaga dreymdi. Snemma á fimmtudagsmorgun fór hann frá Hóli og fóru tveir synir Auðar og tíu aðrir menn með honum. Kjartan kom við í Hvítadal og sótti vaðmálið fyrir Þórhöllu málgu og fór svo Svínadalinn í átt niður í Sælingsdal.

Þennan dag var Guðrún vöknuð snemma á Laugum. Hún gekk þangað sem bræður hennar sváfu og vakti þá. Hún spurði þá hvað þeir ætæuðu að gera um daginn og sögðust þeir lítið ætla gera.

Guðrún sagði „Það er merkilegt hvað ykkur tekst að gera fátt að gagni. Og eftir svívirðingu Kjartans í ykkar garð, þá sofið þið ekki minna en áður og þó hann gangi hér um héraðið eins og hann sé mestur allra þá látið þið það ykkur ekkert varða. Menn eins og þið eruð með gullfiskaminni“.

Þeir bræður spruttu á fætur við skammir Guðrúnar og bjuggu sig undir að sitja fyrir Kjartani, enda hafði Þórhalla sagt öllum sem það vildu heyra hvenær og hvaða leið hann færi heim. Guðrún bað Bolla að fara með þeim. Bolli sagði hins vegar að það vildi hann ekki gera vegna frændsemi við Kjartan og minnti hana á að Ólafur hefði alið sig upp af mikilli ástsemnd.

Guðrún svaraði honum fljótt og sagði það vel geta verið rétt en ef hann ekki færi með að þá væri sambúð þeirra hjóna þar með lokið.
Eftir fortölur Guðrúnar miklaði Bolli fyrir sér fjandskap Kjartans og vopnaðist. Urðu þeir níu saman, Ósvífurssynir, Bolli, og heimamenn þeirra. Þeir fóru til Svínadals og stoppuðu við gil sem heitir Hafragil. Þar bundu þeir hesta sína og settust niður. Bolli lagðist við brúnina á gilinu og var þögull.

Þegar Kjartan var kominn nokkuð suður í Svínadal bað hann fylgdarmenn sína frá Hóli að snúa til baka. Hann sagðist ekki vilja láta menn hlæja að því að hann þyrði ekki að fara sína leið án fylgdarliðs. Sonur Auðar á Hóli svaraði og sagði að þeir skyldu láta það eftir honum að fara ekki lengra og fylgja honum alla leið. „En mikið munum við sjá eftir því ef svo fer að þú þurfir á mönnum að halda í dag“.

Kjartan sagði þá rólegur að Bolli myndi ekki sækjast eftir lífi hans og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því. Enn sagði Kjartan: „En ef þeir Ósvífurssynir sitja fyrir mér, þá mun það engu máli skipta hvort ég sé einn eða hafi með mér marga menn. Útkoman verður sú sama og ekki þeim í hag“.

Eftir þetta fóru Hólsmenn aftur vestur í Saurbæ en Kjartan hélt áfram með tvo menn með sér, Án hrísmaga og Þórarin bónda í Tungu.

24. Mannvíg í Svínadal

Maður sem hét Þorkell bjó á Hafratindum í Svínadal. Hann fór með smalamenn133 sína til að líta eftir hestunum sínum. Þorkell og smalamennirnir sáu bæði Laugamenn sem sátu fyrir Kjartani og Kjartan sjálfan með Áni og Þórarni koma eftir dalnum. Einn smalamannanna stakk upp á því að fara á móti Kjartani og vara hann við. En Þorkell bað hann að þegja og sagði að viturlegra væri að koma sér undan og frá allri hættu en þó á einhvern stað þar sem þeir gætu fylgst með því sem myndi gerast.

Synir Ósvífurs grunaði að Bolli lægi við brúnina á gilinu til þess að geta varað Kjartan við. Þeir gengu því í átt til hans og þóttust grínast í honum, tóku í fæturna á Bolla og drógu hann niður brekkuna. Í sömu andrá134 voru Kjartan og fylgdarmenn hans að koma niður brekkuna. Þegar þeir komu suður fyrir gilið sáu þeir fyrirsátina135 og þekktu mennina, þ.e. Bolla og syni Ósvífurs. Kjartan stökk af hesti sínum og beindi sér að þeim Ósvífurssonum. Kjartan hafði stokkið af hestinum nálægt stórum og miklum steini og skoraði á syni Ósvífurs að taka á móti sér við steininn.

Fyrst skaut Kjartan spjóti að einum Ósvífurssona sem særði á honum vinstri handlegg, svo að á honum var ónýt höndin. Þar næst tók Kjartan upp sverðið sitt góða sem hann fékk í gjöf frá konungi og var auðséð að Laugamenn réðu ekki við Kjartan. Tveir menn sneru sér að Þórarni en sex að Kjartani og Áni. Bolli stóð hins vegar hjá með sverðið Fótbít og virtist ekki ætla blanda sér í árásina.

Ósvífurssynir hörfuðu undan Kjartani og sóttu að136 Áni.
Án féll niður við árásina og særðist þannig að innyfli hans lágu utan við líkama hans. Þar næst sneru Ósvífurssynir sér að Kjartani en Kjartan hjó fótinn af einum þeirra fyrir ofan hné. Þá voru þeir fjórir sem sóttu að Kjartani en hann varðist hraustlega.

Nú tók Kjartan til máls og sagði: „Bolli frændi, hvers vegna fórstu að heiman ef þú vildir aðeins standa kyrr hjá? Þér væri vænst að láta á bardagann reyna og sjá hvað Fótbítur getur í raun og veru gert“.
Bolli lét sem hann heyrði ekki hvað Kjartan sagði og stóð enn þá kyrr.
Synir Ósvífurs fara þá að mana Bolla upp, segja við hann að Bolli muni ekki vilja fá að kynnast þeirri skömm sem því muni fylgja því að ekki standa við orð sín um að veita þeim liðveislu í bardaganum. Þá fyrst tekur Bolli upp Fótbít og snýr sér að Kjartani.

Þá segir Kjartan við Bolla: „Nú ætlar þú víst, frændi, að gera níðingsverk137, en mér þykir það betri kostur að þiggja banaorð138 af þér, en að veita þér það139“.

Þar næst kastaði Kjartan frá sér öllum vopnum og vildi ekki verja sig. Hann var lítið sem ekkert særður eða meiddur en þó ákaflega móður eftir átök bardagans. Bolli svaraði ekki Kjartani en veitti honum þó banasár140. Um leið og Kjartan féll niður settist Bolli undir axlirnar á honum og tók utan um hann og dó Kjartan á hnjám Bolla. Bolli sá strax eftir því sem hann hafði gert og sagði lýsti sér sem morðingja.

Bolli með Kjartan á hnjám sér

Bolli sendi þá Ósvífurssyni heim til Lauga en hann og Þórarinn í Tungu voru eftir hjá líkunum. Þegar Ósvífurssynir komu heim sögðu þeir heimamönnum tíðindin141 og var Guðrún ánægð að heyra. Lík Kjartans var fært heim í Tungu og svo fór Bolli sjálfur heim til Lauga.

Þegar Bolli kom heim gekk Guðrún á móti honum og spurði hversu framorðið væri142. Bolli sagði þá að styttra væri til kvöldmatartíma en hádegis. Þá sagði Guðrún: „Misjöfn eru morgunverkin, ég hef spunnið tólf álna143 garn144 en þú hefur vegið145 Kjartan“.
Bolli bað hana um að minna sig ekki á það óhappaverk.

Guðrún sagði þá að hún teldi slíkt ekki vera óhapp. Enn fremur sagði hún við Bolla að henni hefði þótt hann virka sem meiri maður þann veturinn sem Kjartan var í Noregi en nú, hann hefði traðkað á honum og lítilsvirt Bolla eftir að Kjartan kom til baka til Íslands. Guðrún hélt áfram og sagði: „Þó er það sem mér þykir merkilegast í þessu öllu saman ótalið, að Hrefna muni ekki ganga hlægjandi að sænginni í kvöld“.

Þá svarar Bolli og var mjög reiður: „Ég held nú að hún muni kippa sér meira upp við þessi tíðindi en þú. Og ekki get ég séð það á þér að þér þætti það nokkuð verri kostur ef bardaginn hefði farið svo að ég hefði dáið og Kjartan stæði hér að segja þér frá þessu öllu“.
Guðrún fann það að Bolli væri reiður og bað hann um að segja þetta ekki: „Vittu það, Bolli, að ég er mjög þakklát fyrir að þú hafir klárað verkið. Nú hefur þú sannað það fyrir mér að þú vilt ekkert gera í móti skapi mínu“.

Um nóttina eftir fréttist það til Sælingsdalstungu að Án hefði sest upp, en menn höfðu talið hann dauðan eftir bardagann. Mönnunum sem vöktu yfir líkunum brá við og hræddust mjög þegar Án settist upp. En Án sagði við þá: „Ég bið ykkur í Guðs nafni að hræðast mig ekki, því ég hef lifað og haft vit mitt allt þangað til ég rann í svefn146. Mig dreymdi sömu konu og mig hefur áður dreymt og í draumnum núna kom hún og tók hrísið úr maganum og setti innyflin í staðinn“.

Síðan var bundið um sár Áns og hann varð heill.
Eftir þetta var hann ávallt kallaður Án hrísmagi.

25. Eftirmáli

Þegar þessi tíðindi spurðust að Hjarðarholti vildu bræður Kjartans, Halldór og Steindór, fara strax á stað og drepa Bolla. En Ólafur faðir þeirra sagði að sonur sinn væri ekki bættur147 þó að Bolli væri drepinn. Í stað þess að fara í leiðangur til þess að drepa Bolla ráðlagði148 hann sonum sínum að fara að tveimur sonum Þórhöllu málgu sem höfðu verið í fyrirsátinni. Hann vissi að þeir höfðu verið sendir frá Laugum suður að Helgafelli á Snæfellsnesi til að leita ráða hjá Snorra goða sem bjó þar.
Það gerðu synir Ólafs, náðu Þórhöllusonum á báti í Hvammsfirði og drápu þá báða.

Ólafur lét flytja lík Kjartans heim að Hjarðarholti. Síðan safnaði hann liði og fór með það að Laugum. Þar var gerð tilraun til þess að sættast. Að sættast við Bolla gekk vel vegna þess að Bolli bað Ólaf einan um að ráða sættinni.

Þar næst var ákveðið að stefna til sáttafundar í Ljárskógum. Þangað kom Bolli ekki en Ólafur hafði ráðið því. Á sáttafundinum var ákveðið að Ólafur einn skyldi fá að ákveða hvaða bætur hann skyldi fá fyrir morðið á Kjartani og að hann skyldi tilkynna það á Þórsnesþingi.

Hrefna flutti til bræðra sinna í Húnaþingi eftir að Kjartan hafði verið drepinn. Hún lifði stuttan tíma eftir þetta og var það álit manna að hún hafi dáið úr ástarsorg.

Á þessum tíma hafi enn þá ekki verið búið að reisa kirkju í Dölum. En Þorsteinn Egilsson, móðurbróðir Kjartans, hafði látið gera kirkju á Borg á Mýrum. Hann flutti lík Kjartans með sér þangað og var Kjartan þar grafinn.

Svo leið að því að Þórsnesþing var haldið. Þar voru allir Ósvífurssynir dæmdir sekir skógarmenn149. Þeir skyldu fara úr landi og ekki koma aftur til Íslands á meðan nokkur sona Ólafs væri á lífi.

Ólafur vildi ekki sækja Bolla til sektar en bað hann að bæta fyrir sig og gjörðir sínar með verðmætum eða peningum. Sonum Ólafs líkaði sú ákvörðun föður þeirra illa en Ólafur sagði að svona yrði þetta að vera á meðan hann væri á lífi.
Svo fóru synir Ósvífurs úr landi og komu aldrei til Íslands aftur.

Ólafur réð því að Bolli og Guðrún keyptu land í Sælingsdaltungu og settu þar saman bú. Þar eignuðust þau son sem var nefndur Þorleikur.

Ólafur lifði í þrjú ár eftir að Kjartan var myrtur. Halldór sonur hans tók við búi í Hjarðarholti eftir að Ólafur dó og var Þorgerður þar með honum. Hún var mjög heiftarfengin150 og þótti sár fósturlaunin151.

25. Hefndarhvöt Þorgerðar

Veturinn eftir að Ólafur Höskuldsson dó sendi Þorgerður húsfreyja Steinþóri syni sínum skilaboð og bað hann um að koma og hitta sig. Hann bjó á Dönustöðum í Laxárdal.
Þegar hann kom að Hjarðarholti sagði Þorgerður sonum sínum að hún vildi fara vestur til Saurbæjar að hitta Auði vinkonu sína á Hóli.
Þeir fóru báðir með henni, Halldór Ólafsson og Steinþór Ólafsson, og fóru tveir aðrir menn með í leiðangurinn.

Þegar þau eru á leiðinni koma þau að bænum í Sælingsdastungu. Þegar þau nálgast bæinn snýr Þorgerður hesti sínum við, benti á bæinn og spurði syni sína: „Hvað heitir þessi bær?“
Halldór sonur hennar svarar og segir að hún sé ekki að spyrja til þess að forvitnast, þess heldur viti hún vel hvaða bæ sé um að ræða og að þessi bær heiti í Tungu.
Þorgerður spyr þá hver búi þar og svarar Halldór henni með því að spyrja hana hvort hún viti það ekki sjálf.

Þorgerður talar við syni sína um Tungu

Þorgerður hristir höfuðið og segir: „Ég veit vel það ósköp vel, að hér býr Bolli, bróðurbani ykkar. Og það skuluð þið vita að þið eruð heldur ólíkíkir frændum ykkar, ef það er í raun svo að þið vilji ekki hefna þvílíks mann sem Kjartan var. Það getið þið verið vissir um, að Egill móðurfaðir ykkar152 mundi ekki hika við að hefna hans í ykkar stöðu. Það er vont að eiga lítilmenni fyrir syni. Þið væruð betri til þess fallnir að vera dætur en synir þar sem dætur geta gift sig eiginmönnum sem duga til einhvers, en þið virðist ekki duga til neins. Við skulum fara til baka þar sem að markmið mitt með þessum leiðangri var ekki að fara til Saurbæjar heldur minna ykkur á þetta, ef þið væruð búnir að gleyma því hvað hefði átt sér stað“.

Halldór svarar og segist ekki munu erfa það við móður sína þó hún sakni Kjartans og þyki morð hans harmleikur.

27. Hefndin

Á Alþingi sumarið eftir hitti Halldór Ólafsson systurson sinn norðan úr Víðidal, Barða Guðmundsson í Ásbjarnarnesi. Halldór bauð Barða að koma við hjá sér á leiðinni heim af þingi. Barði þáði það og var í Hjarðarholti það sem eftir var að sumrinu.

Í lok sumarsins sagði Halldór Barða frá leyndarmáli, því að þeir bræður ætluðu að fara að Bolla og taka af honum lífið. Hann sagði Barða að þeir þyldu ekki ögranir móður þeirra lengur.

Barða leist ekki mjög á þetta og sagði það mundi líta illa út að fara ekki eftir sáttunum sem Ólafur hefði komið á. Enn fremur sagði Barði Bolla hafa marga menn með sér og vera sjálfur hinn mesti garpur153. Fyrir vikið að ef Halldóri væri alvara þyrfti að fara viturlega að málum og skipuleggja þetta rétt.

Halldór sagði Barða að hann miklaði þetta ekki um of fyrir sér og að hann óttaðist ekki viðbrögð Ósvífurs og Guðrúnar. Hann sagði að hann hefði ekki nefnt þetta við Barða nema þá aðeins vegna þess að hann væri ákveðinn í því að ná fram hefndinni og bað Barða um að koma með þeim bræðrum.
Barði lofaði því.

Halldór hafði frétt að Bolli hefði sent húskarla sína norður til Hrútafjarðar til skips en væri sjálfur í seli í Sælingsdal með fáa menn með sér.

Halldór hófst handa við að safna að sér mönnum og urðu þeir níu saman.
Synir Ólafs voru fjórir, Barði var fimmti maðurinn, Lambi sonur Melkorku og Þorbjarnar skrjúps var sá sjötti, Þorsteinn svarti bóndi í Hundadal í Dölum var sá sjöundi, Helgi Harðbeinsson mágur hans var sá áttundi, og sá níundi var Án hrísmagi.

Þorgerður gerði sig líklega til þess að koma með þeim í ferðina en synir hennar drógu úr öllum slíkum hugmyndum, sögðu að svona ferð væri ekki kvennaferð. Þorgerður sagðist víst ætla fara með, því hún þekkti syni sína og að þeim veitti ekki af því að hafa hana með svo hún gæti hvatt þá til dáða. Þeir sögðu að hún skyldi þá fá að ráða því og svo varð að þau fóru frá Hjarðarholti, tíu saman.

Þau komu í Sælingsdal snemma morguns. Á þessum tíma var þykkur skógur í dalnum og fóru þau af hestum sínum í skóginum, ekki langt frá selinu. Þar biðu þau þangað til húskarlar Bolla færu út til heyverka154.

Smalamaður Bolla fór að huga að kindum snemma um morguninn uppi í hlíðinni í dalnum. Hann sá menn og hesta í skóginum og grunaði að þetta mundu ekki vera friðarmenn sem færu jafn leynilega og föruneytið sem hann sá. Smalamaðurinn tók á stað og fór í átt að selinu til þess að segja Bolla frá því að fólk væri í felum í skóginum.

Halldór hafði verið að fylgjast vel með svæðinu og sá manninn hlaupa í átt að selinu. Hann sagði förunautum155 sínum að þarna hljóti að vera smalamaður Bolla og að líklegast hafi hann séð til þeirra. Þeir taka á stað og fara á móti smalamanninum og varð Án hrísmagi fljótastur að ná honum. Án hrísmagi keyrði smalamanninn í jörðina með þvílíku afli að hryggur hans brotnaði í sundur. Þar næst fór liðið saman að selinu.

Bolli hafði verið vaknaður snemma þennan morguninn og skipað húskörlum sínum að fara að vinna, en farið aftur að sofa þegar þeir voru farnir. Bolli og Guðrún voru því ein í selinu og vöknuðu þegar föruneyti Halldórs stukku af baki hesta sinna. Þau heyrðu að mennirnir ræddu um það sín á milli hver skyldi fara fyrstur inn í selið til Bolla.

Bolli þekki rödd Halldórs og fleiri þeirra förunauta. Hann bað Guðrúnu um að yfirgefa selið vegna þess að ekkert sem henni þætti gaman að væri að fara gerast þar. Hún svaraði Bolla með því að segja að ekkert væri að fara gerast sem hún gæti ekki horft á og að Bolla mundi ekki verða skaði að þó hún væri hjá honum. Bolli sagðist hins vegar vilja ráða þessu einn. Úr varð að Guðrún gekk úr selinu, fór ofan fyrir brekkuna, niður að læk sem þar féll og hóst handa við að þvo léreft156 sín.

Nú var Bolli einn eftir í selinu. Hann tók saman vopn sín, setti hjálm á höfuð sé og hafði skjöld fyrir sér og Fótbít í hendi. Hann hafði þó enga brynju á sér.

Halldór og félagar ræða um hvernig eigi að gera þetta allt saman, því engin vildi ganga inn í selið. Þá tók Án hrísmagi til máls og sagði: „Hér er ég með mönnum sem eru miklu blóðskyldari Kjartani en ég er. En það hef ég fyrir satt að enginn muni þann atburð betur en ég sjálfur, daginn sem Kjartan dó. Ég mun því ganga fyrstur inn í selið.“

Síðan gekk Án inn í selið og hafði skjöld yfir höfðinu á sér. Skyndilega hjó Bolli til hans með sverðinu Fótbít og fór höggið í gegnum skjöldinn sem varð til þess að Án féll niður. Án dó samstundis við höggið.

Næst gekk Lambi inn í selið. Á saman andartaki var Bolli að kippa Fótbít úr sárinu sem hann hafði unnið á Áni hrísmaga og var Bolli því ekki með skjöldinn fyrir sér. Lambi sá tækifærið og hjó í lærið á Bolla með þeim afleiðingum að Bolli fékk þar mikið sár. Bolli hjó til baka til Lamba á öxl hans og renndi sverðið niður með síðunni. Lambi varð þá strax óvígur157.

Á þessu andartaki gekk Helgi Harðbeinsson inn í selið og hafði mikið og stórt spjót með járnvöfðu skafti í hendinni. Þegar Bolli sá Helga með spjótið kastaði hann sverðinu Fótbít frá sér, tók um skjöldinn sinn með báðum höndum og gekk í átt að selsdyrunum í móti Helga. Helgi gerði árás á Bolla sem varð til þess að spjótið fór í gegnum skjöldinn og Bolla sjálfan.

Bolli hallaðist upp að selsveggnum og komu nú menn inn í selið með offorsi158.
Bolli tók til máls og sagðist ekki búast við að geta varist frekari árásum.
Þorgerður var á þessum tímapunkti komin inn í selið og bað mennina um að höggva höfuðið af Bolla. Bolli stóð enn við selvegginn og hélt spjótinu uppi svo innyfli hans hlypu ekki út.
Steinþór Ólafsson brást við beiðni móður sinnar og hjó með öxi á háls Bolla með þeim afleiðingum að höfuð hans féll til jarðarinnar.

Þorgerður fyrirskipaði liðsmönnum að láta höfuðið eftir liggja og sagði að Guðrún mundi sennilega vilja greiða rauðu hári Bolla um einhverja stund159. Eftir þetta ganga þau úr selinu.

Guðrún gengur þá neðan frá læknum og talar við Halldór og fylgdarlið hans og spyr hvað hafi gerst í selinu milli þeirra og Bola. Þeir segja henni það.

Guðrún var klædd í kyrtil160 og hafði fald á höfðinu. Hún hafði hnýtt utan um sig þunnan dúk með lausum þráðum á endunum.
Helgi Harðbeinsson gekk að Guðrúnu og tók um dúkinn og þurrkaði blóð af spjótinu sínu sem hafði farið í gegnum Bolla. Guðrún leit til hans og brosti.

Helgi þurrkar af spjótinu

Þá mælti Halldór: „Þetta er illmannlega gert, Helgi, og grimmlega“.
Helgi bað hann um að harma161 það ekki og sagði „því að ég geri ráð fyrir því að sú sem er undir þessum dúk muni verða minn banamaður“.

Síðan tóku Halldór og föruneyti hans hesta sína og fóru. Guðrún gekk áleiðis með þeim og talaði við þá um stund en sneri svo til baka.

Á eftir töluðu förunautar Halldórs um að Guðrún hefði lítið kippt sér upp við dráp Bolla. Hún hefði talað við þá eins og þeir hefðu ekkert gert sem væri henni á móti skapi. Þá svaraði Halldór: „Ég geri ekki ráð fyrir öðru en Guðrúnu þyki andlát Bolla leitt. Ég tel það þó nokkuð ljóst að hún hafi heldur gengið með okkur með það að marki að komast að því hverjir hefðu verið með í ferðinni. Það er satt að segja mikill skaði fyrir Guðrúnu að missa Bolla þó við frændur værum ósáttir við hann vegna gjörða hans. Tel ég því miður þetta ekki vera í síðasta skipti sem við heyrum af þessu máli“. Eftir þetta fara þau síðan heim í Hjarðarholt.

28. Guðrún flyst að Helgafelli

Fréttirnar um andlát Bolla berast fljótt manna á milli og var hans sárt saknað. Guðrún sendi strax menn á fund til Snorra goða suður að Helgafelli með skilaboð frá sér um að hana vantaði að tala við hann. Snorri var fljótur að bregðast við skilaboðum Guðrúnar og kom í Sælingsdalstungu með sextíu menn með sér. Snorri bauðst til að sætta öll mál fyrir Guðrúnu en hún vildi ekki taka það í mál að fá fé eða önnur verðmæti fyrir morðið á Bolla sonar síns Þorleiks vegna. Þorleikur var þá fjögurra ára gamall.

Þess í stað sagði Guðrún við Snorra að henni þætti það best ef Snorri væri til í að skipta við sig á bústöðum. Guðrún gat ekki hugsað sér að þurfa að búa í nágrenni við Hjarðhyltinga. Snorri féllst á það en sagði þó að Guðrún þyrfti að búa þetta árið í Tungu. Þar næst fór Snorri aftur heim á Helgafell.

Veturinn eftir fæddi Guðrún son sem var nefndur Bolli. Hann var snemma stór og mikill í vexti og fríður. Guðrúnu þótti mjög vænt um hann.

Um vorið eftir skiptust þau Guðrún og Snorri goði svo á löndum. Snorri flutti að Sælingsdalstungu og bjó þar á meðan hann lifði. Guðrún fór til Helgafells og Ósvífur faðir hennar líka. Þar settu þau saman rausnarlegt162 bú og þar uxu synir Guðrúnar upp, þeir Þorleikur og Bolli.

Maður nokkur sem hét Þorgils og var Hölluson bjó í Tungu í Hörðadal. Hann var mikill maður í vexti og fríður og ansi góður með sig. Snorra goða líkaði ekki vel við Þorgils; þótti hann afskiptasamur og láta bera mikið á sér163.

Þorgils þurfti oft að fara út á Snæfellsnes til að sinna ýmsum erindum og kom hann jafnan við á Helgafelli hjá Guðrúnu. Hann bauð Þorleiki, syni Guðrúnar, með sér heim og var Þorleikur lengi hjá Þorgilsi og lærði af honum lög164.

Frægur maður sem hét Þorkell Eyjólfsson var ættstór165 og mikill vinur Snorra goða. Hann átti skip og fór oft á milli Íslands og Noregs. Eitt sinn er kom hann heim í Sælingsdalstungu til Snorra goða ráðlagði Snorri honum að láta af166 slíkum ferðum, kvænast og gerast höfðingi. Snorri sagði Þorkel eiga ætt til167 slíkrar nafnbótar168.

Þorkell svaraði Snorra og sagði að oft hefði það verið svo að ráðleggingar Snorra hefðu reynst honum vel. Hann spurði þó hvort Snorri hefði í huga hvaða konu hann skyldi biðja um að giftast sér.
Snorri svaraði um hæl og sagði að Þorkell skildi biðja þeirrar konu sem bestur kostur væri en það væri Guðrún Ósvífursdóttir.

Þorkell sagði að það væri rétt hjá Snorra að um væri að ræða virðulega tillögu að hjónabandi, Guðrún væri sannarlega virðuleg kona og góður kvenkostur. Hins vegar þótti Þorkatli yfirgangur og frekja Guðrúnar, sem á þeim tíma hafði spurst út til allra þeirra sem vildu af því heyra, frekar mikil og þótti það stór ókostur að hún myndi sennilegast vilja láta hefna Bolla. Enn fremur sagði Þorkell að þegar að því kæmi að hefna Bolla væri Þorgils Hölluson að öllum líkindum inn í það blandaður og þótti Þorkatli það ólíklegt að Þorgilsi líkaði áform hans um að giftast Guðrúnu. Samt sem áður ítrekaði Þorkell að honum væri Guðrúnu vel að skapi og gæti vel hugsað sér að giftast henni.

Snorri hélt ekki að neinn skaði yrði af Þorgilsi og hélt enn fremur að eitthvað mundi gerast í hefnd eftir Bolla, áður en árið væri liðið. Snorri ráðlagði Þorkatli að fara um sumarið til Noregs, ver þar yfir veturinn og sjá svo hvernig málið stæðu þegar hann kæmi til baka. Þorkell féllst á það og skiljast þeir Þorkell og Snorri eftir það.
Síðan fór Þorkell til Noregs og var þar um veturinn.

29. Ráðagerð um hefnd

Um sumarið, eftir að Þorkell var farinn til Noregs, sendi Guðrún mann til Snorra goða og bað hann að hitta sig á ákveðnum stað við Haukadalsá í Dölum. Bæði Guðrún og Snorri komu þangað snemma morguns og var Bolli Bollason með móður sinni. Hann var þá orðinn tólf ára gamall en mjög þroskaður fyrir sinn aldur, eða nánar tiltekið eins og fullorðinn maður, bæði að afli og vitri169. Hann bar þá sverðið Fótbít.

Þau Snorri og Guðrún ræddu saman en Bolli og liðsmenn Snorra litu eftir mannaferðum um héraðið. Snorri spurði Guðrúnu hvað hefði nú gerst sem ylli því að hún sendi svo skyndilega boð eftir sér. Guðrún svaraði að sá atburður sem hún vildi tala um væri eins og spánnýr170 fyrir sér og þó hefði hann gerst fyrir tólf árum síðan, en Guðrún vildi ræða um hefnd Bolla.

Snorri spurði á hverjum hún hefði hugsað sér að hefna. Guðrún sagðist vilja að Ólafssynir slyppu ekki allir lifandi. Snorri bannaði að farið yrði að þeim mönnum sem mest væru virtir í héraðinu og ítrekaði að þeir Ólafssynir ættu náfrændur sem mundu hefna þeirra. Enn fremur sagði Snorri að mestu skipi að þessar fjölskyldur færu að hætta að berjast og þessi ættvíg takist þannig af.

Þá sagði Guðrún að rétt væri að fara að Lamba Þorbjarnarsyni. Snorri taldi það að vísu verðskuldað en það væri of lítil hefnd fyrir Bolla og ekki hægt að jafna vígum þeirra saman171. Guðrún stakk þá upp á að fara að Þorsteini svarta en Snorri sagði hann ekki hafa unnið á Bolli, þótt hann hefði vissulega verið með í aðförinni að honum. En meiri ástæða væri til að fara að Helga Harðbeinssyni sem hefði slegið eitt af banahöggunum sem olli dauða Bolla. Guðrún var sammála því en sagðist þó ekki vilja að allir aðrir en Helgi fengju að sitja í friði og þyrftu ekki að svara fyrir gjörðir sínar.

Snorri lagði þá til að þeir Lambi og Þorsteinn skyldu fara í ferð með sonum Guðrúnar að taka líf Helga. Með því að taka þátt í því gætu þeir keypt sér frið. En ef þeir ekki samþykktu það, þá væri Guðrúnu frjálst að gera þeim hvað svo sem henni hugsaðist.

Guðrún spurði þá Snorra hvernig ætti að fara að því að fá Þorstein og Lamba með í hefndarförina en Snorri sagði að það yrðu þeir sem stýrðu förinni að sjá um. Guðrún bað Snorra um að ráðleggja sér hver bestur væri til þess að stýra slíkri för og stakk Snorri upp á Þorgilsi Höllusyni. Guðrún sagðist þá hafa rætt um slík mál við Þorgils áður en hann hefði ekki verið til í að taka þátt í slíku nema Guðrún vildi giftast honum.

Snorri sagðist kunna ráð við því. Hún skyldi lofa Þorgilsi að giftast ekki öðrum manni samlendum172 en honum. Það mætti svo færa fyrir því sterk og góð rök að Guðrún gæti gifst Þorkatli Eyjólfssyni, því hann væri ekki hér á landi og því ekki samlendur. Varð þetta niðurstaðan sem Guðrún og Snorri féllust á og skildust þau að eftir þetta.

Nokkrum dögum seinna kallaði Guðrún syni sína til sín í laukgarð sinn á Helgafelli. Þar hafði hún breitt út skyrtu og buxur, hvort tveggja mjög blóðugt. Guðrún sagði að þessi klæði ættu að eggja173 og hvetja þá til föðurhefnda. Sagðist Guðrún ekki ætla hafa um það mörg orð, því að engin orð sem hún gæti sagt mundu hafa áhrif á þá ef að blóðug klæði föður þeirra hefðu það ekki.

Þeim bræðrum brá mjög við þetta en svöruðu að þeir hefðu hingað til verið of ungir til að leita hefnda og engan fullorðinn haft til að stýra förinni. Guðrún sagði að þeir hugsuðu meira um hestavíg174 og leiki en hefndirnar.

Um nóttina eftir gátu þeir bræður ekki sofið. Þorgils Hölluson lá í skálanum hjá þeim og varð var við að þeir vöktu og náðu ekki að festa svefn. Hann spurði þá hvers vegna þeir svæfu ekki og sögðu þeir honum frá samtali þeirra mæðgina175. Sögðust þeir bræður ekki lengur geta borið harm sinn eða eggjanir móður sinnar176.

Daginn eftir tala þau Guðrún og Þorgils Hölluson saman. Guðrún sagðist halda að synir sínir þyldu ekki lengur að láta föður síns óhefnt, það þyrfti að hefna Bolla. Þorgils svaraði henni með því að það væri ekki til neins að ræða þetta við sig ef Guðrún vildi ekki giftast sér. Ef hún vildi hins vegar giftast honum þá sagði hann það vera lítið mál að drepa einhvern þeirra sem gengu mest fram í morði Bolla.

Guðrún svaraði að synir hennar vildu fara að Helga Harðbeinssyni, þar sem hann byggi í Skorradal og taka af honum lífið. Þorgils sagði að það skipti hann ekki nokkru máli hver maðurinn væri eða hvaða nafn hann hefði, því hann myndi ráða við hvern sem er. En allt þetta væri undir því komið, eða með öðrum orðum, háð því að Guðrún lofaði því í vottaviðurvist að giftast sér.

Þá lét Guðrún kalla til syni sína og einn mann til viðbótar. Hún sagði þeim að Þorgils hefði lofað því að gerast fyrirmaður í aðför að Helga Harbeinssyni með sonum sínum, með því skilyrði að hún giftist honum. Guðrún sagði: „Ég hér með, í vitnaviðurvist ykkar, að ég lofa Þorgilsi að giftast engum manni öðrum samlendum en honum en ég ætla ekki að giftast í önnur lönd heldur“.
Þorgilsi fannst þetta nógu tryggt loforð. Fóru þeir nú, Þorgils og synir Guðrúnar, að undirbúa ferð frá Helgagfelli.

30. Skorradalsför

Á leiðinni í aðförinni að Helga Harðbeinssyni komu þeir Þorgils, Þorleikur og Bolli Bollason við á leiðarþingi sem haldið var á Leiðarhólmi í Dölum. Leiðaþing var þing sem haldið var heima í héraði að hausti efir að Alþingi lauk. Þar kallaði Þorgils á Þorstein svarta og bað hann um að tala við sig. Þorgils minnti Þorstein á að hann hefði tekið þátt í aðförinni að Bolli og ætti eftir að bæta fyrir það við syni hans. Þeir hefðu ná ákveðið að fara að Helga Harðbeinssyni til að hefna föður síns og vildu Bollasynir að Þorsteinn væri með í þeirri för. Þorgils útskýrði fyrir Þorsteini að hann gæti með því að verða að vilja þeirra keypt sér frið og sætt.

Þorsteinn sagði að það væri ekki við hæfi fyrir sig að taka þátt í slíkri aðför þar sem Helgi væri mágur177 sinn. Í staðinn bauðst Þorsteinn til þess að bæta Bollasonum fyrir sitt hlutverk í aðförinni að föður þeirra með fé. Þorgils sagðist halda að þeim bræðrum þætti það ekki ákjósanlegt að taka fé fyrir föður sinn. Þorgils sagði við Þorstein að hann ætti um tvo kosti að velja, annað hvort að fara með þeim eða sæta afarkostum178. Þorsteinn spurði hvort fleirum en honum yrðu gerðir sömu kostir og svaraði Þorgils að Lambi Þorbjarnarson mundi fá sama boð. Þorsteini fannst betra að vera ekki einn um að kaupa sér frið með þessum hætti.

Eftir það kallaði Þorgils á Lamba og bauð honum það sama og Þorsteini en Þorsteinn hvatti hann til að taka boðinu. Lauk þessu svo með því að Lambi lofaði að fara með þeim en setta það skilyrði að frændur sínir, synir Ólafs Höskuldssonar, yrði látnir vera í friði. Þorgils lofaði því að Ólafssynir yrðu látnir í friði og féllust Lambi og Þorsteinn á að vera með í aðförinni að Helga.

Nokkrum dögum síðar búast þeir til ferðar vestan úr Dölum og voru tíu saman. Þeir fóru suður í Borgarfjörð og komu að kvöldi dags að Vatnshorni í Skorradal, þar sem Helgi bjó. Þeir stigu af hestum sínum í skóginum, skammt frá bænum. Þorgils sagði að þeir skyldu vera þar um nóttina og sagðist á meðan ætla fara til bæjarins á njósn og forvitnast hvort Helgi væri heima. Þorgils sagði að honum hefði verið sagt af því að Helgi hafi yfirleitt fáa menn með sér en sé allra manna varastur um sig og sofi í traustu afþiljuðu rúmi sem hægt sé að loka.

Þorgils fór þar næst í fátæklegan kufl179 yfir klæði sín og gekk að bænum. Við túngarðinn hitti hann mann og sagði við hann: „Þér mun þykja ég hálfvitlaus fyrir að spyrja, félagi. En hvar er ég kominn í sveit, eða hvað heitir þessi bær sem hér er og hver býr hér?“
Maðurinn svaraði honum og sagði hann vera furðu heimskan mann og fávísan180 ef hann ekki hafði heyrt um Helga Harðbeinsson. Helgi væri hinn mesti garpur181 og mikilmenni.

Þorgils spurði manninn að því hversu góður Helgi væri að taka við ókunnugum mönnum sem þyrftu á aðstoð að halda. Maðurinn sagði Helga vera mið mesta stórmenni sem væri fús til að taka við slíkum mönnum. Þorgils spurði þá manninn hvort Helgi væri heim og spurði maðurinn hann þá að því hvað honum vantaði aðstoð með.

Þorgils svaraði: „Ég varð sekur skógarmaður182 í sumar á þingi. Vildi ég leita mér trausts nokkurs manns sem væri mikill fyrir sér. Skaltu nú fylgja mér til bæjarins til fundar við Helga“.

Maðurinn sagðist vel geta gert það og honum væri frjálst að gista í bænum. Hins vegar myndi hann ekki finna Helga í bænum þar sem hann væri ekki heima.
Þá spurði Þorgils manninn að því hvar Helgi væri.
Maðurinn sagði Helga vera í selinu sínu sem héti í Sarpi.
Þorgils spurði þá hvað það væri og hvaða menn væru þar með honum.
Maðurinn sagði honum að þar væru sonur hans, Harðbeinn, og tveir karlmenn aðrir.
Þorgils bað hann um að vísa sér til selsins og gerði maðurinn það. Eftir það skilja þeir.

Þar næst snýr Þorgils til förunauta sinni í skóginum og segir þeim hverju hann hafi komist að um Helga. Þeir voru síðan í skóginum um nóttina.
Morguninn eftir fóru þeir svo í átt að selinu og stoppuðu skammt frá því. Þorgils bað alla um að stíga af hestum sínum og éta dagverð183. Þeir gera það og dveljast nærri selinu um stund.

31. Bani Helga Harðbeinssonar

Nú skal segja frá því sem gerðist í selinu. Um morguninn bað Helgi smalamann184 sinn að fara á skóginn sem var nálægt selinu og hafa auga á mannaferðum þar, sagði að sig hefði dreymt illa um nóttina. Smalamaður gerði það. Þegar hann kom aftur spurði Helgi hvort hann hefði séð eitthvað óvenjulegt.

Smalamaðurinn sagðist hafa séð nokkra menn og hélt að þeir væru menn úr einhverju öðru héraði. Helgi spurði hvar þeir væru og hvort hann hefði athugað eitthvað sérstaklega að klæðaburði mannanna. Smalamaðurinn sagðist hafa gert það og sagði: „Það sat maður í lituðum söðli185 og blárri kápu, mikill maður í vexti og drengilegur186, með há kollvik187 og með tennur sem mikið ber á“.

Helgi segir þá við smalamann: „Þennan mann þekki ég af frásögn þinni. Þú hefur séð Þorgils Hölluson vestan úr Hörðadal. Hvað ætli sá kappi vilji mér?“

Smalamaður hélt frásögn sinni áfram og sagði: „Ég sá líka mann í gylltum söðli. Hann var í rauðum skarlatskyrtli og hafði gullhring á hendi. Hann hafði gult liðað hár sem náði honum niður á axlir. Hann var ljóslitaður ásýndar með sterkan svip á andliti og nef hans vísaði nokkuð upp, með ákveðin augnsvip, bláeygur188 og með leiftrandi augu. Hann var unglegur maður og enn skegglaus“.

Helgi svarar: „Ekki hef ég séð þennan mann áður. Þó get ég giskað á umræddur maður sé Bolli Bollason, því mér er sagt að hann sé nokkuð efnilegur“.

Þá sagði smalamaðurinn: „Þá sá ég mann sitja í skreyttum söðli, í gulgrænum kyrtli189. Hann hafði fingurgull á hendi. Sá maður var hinn fríðasti sýnum og mun enn vera ungur, með ljósbrúnt og þykkt hár“.

Helgi svarar: „Ég þykist vita hver sá maður mun vera. Þú hefur séð Þorleik Bollason“.

Það var því svo að smalamaður lýsti þeim förunautum svo greinilega að Helgi þekkti þá alla. Hann undraðist mest þegar hann komst að því að Lambi Þorbjarnarson og Þorsteinn svarti væru með í förinni og þótti undarlegt að þeir skyldu vera í liði með Þorgilsi Höllusyni og sonum Bolla.

Helgi þóttist vita að þessir menn væru á leið til fundar við sig og skipaði þeim konum sem staddar voru í selinu að fara í karlföt og fara á hestum hratt heim að Vatnshorni til að safna liði. Fóru þær í burt frá selinu, fjórar saman.

Þeir Þorgils og föruneyti sigu nú á bak hesta sinna og komu upp úr skóginum. Þeir sáu fjóra menn flýta sér frá selinu á hestum. Sumir förunautar Þorgils sögðu að þeir skyldu drífa sig á eftir þeim. En Þorleikur Bollason vildi að þeir kæmu fyrst við í selinu og sagði: „Ég tel það ólíklegt að umræddir menn séu Helgi og hans fylgdarlið. Mér sýnist að þetta séu konur einar“.

Þessu réð Þorleikur og snúa þeir heim að selinu. Helgi og menn hans loka selsdyrunum og taka upp vopn sín. Helgi og menn hans voru fimm inni í selinu: Helgi, Harðbeinn sonur hans sem var tólf ára gamall, smalamaðurinn og tveir aðrir menn.

Selið var þannig byggt að inni í því var tré sem lá eftir endilöngu húsinu efst upp við þakið sem hélt þakinu uppi. Tréð lá á efsta hluta húsgaflsins190 sem var eins og þríhyrningur í laginu og náðu endar þess út fyrir þakið. Selið var nýlegt og torfið á þakinu ekki gróið saman. Þeir Þorgils og föruneyti hans taka nú það ráð að ganga upp á húsið og á tréendanna sem héldu uppi húsinu og reyna brjóta það eða lyfta upp til þess að þakið myndi hrynja niður. Á meðan sátu tveir menn um selsdyrnar.

Þegar þeir lyftu báðum endum trésins sem hélt húsinu uppi brotnaði það fyrir miðju. Það varð til þess að Helgi stökk út um dyrnar svo djarflega191 að mennirnir sem sátu fyrir selsdyrunum hrukku undan. Þorgils var staddur nærri og hjó til Helga með sverði og kom því á öxlina á Helga með þeim afleiðingum að hann særðist mikið. Helgi sneri þá í móti og hafði í hendi sér viðaröxi. Helgi sagði: „Ekki hika ég við að mæta vopnum þó ég sé gamall orðinn“. Hann fleygði öxinni að Þorgilsi og endaði hún í fót hans svo úr varð mikill áverki192. Þegar Bolli sá það hljóp hann að Helga og hafði í hendi sér sverðið Fótbít og lagði það í gegnum Helga. Var það banasár193 hans.

Bolli veitir Helga banasár

Fylgdarmenn Helga stukku líka út úr selinu. Tveir þeirra voru felldir eftir stuttan bardaga. Einn af förunautum þeirra Þorgils vildi ráðast að Harbeini, syni Helga. Bolli sá það og bað hann um að gera Harðbeini ekki skaða, sagði að markmið ferðarinnar væri ekki að vinna klækisverk194.

Eftir þetta héldu þeir Þorgills á stað í brott frá selinu og yfir til Reykjardals og lýstu þar vígum195. Þar næst fóru þeir vestur í Dali sömu leið og þeir höfðu komið.

32. Fjórða hjónaband Guðrúnar

Þorgils Hölluson fór með sonum Guðrúnar til Helgafells. Þeir komu þangað seint um kvöld og voru allir menn komnir í rekkjur196. Guðrún reis á fætur og bað menn að standa upp og koma með mat fyrir strákana. Hún gekk inn í stofu til Þorgils og settist hjá honum. Þorgils sagði henni frá vígi197 Helga. Var Guðrún alsæl með það og þakkaði þeim fyrir. Eftir það fengu þeir að borða og þegar mennirnir voru orðnir mettir198 fóru þeir að sofa.

Um daginn eftir fór Þorgils til Guðrúnar til að tala við hana, sagðist hafa gert það sem hún hefði beðið um og minnti hana á það sem hún hefði lofað honum í staðinn.
Guðrún sagðist ekki hafa gleymt því og sagði: „Ég lofa þér að giftast engum manni samlendum öðrum en þér, eða viltu nokkuð mæla í móti199 þessu?“
Þorgils sagði hana muna þetta rétt.
Guðrún sagði að það væri gott að þau væru sammála um þetta mál. En hún sagði sig ekki vera svíkja loforðið þó hún giftist Þorkatli Eyjólfssyni, því að hann væri ekki staddur á Íslandi.
Þorgils roðnaði við200 og sagðist þekkja að þetta væru ráð Snorra goða.

Þorgils spratt þar næst á fætur og var hinn reiðasti, gekk til förunauta sinna og vildi yfirgefa Helgafell þegar í stað. Þorleiki líkaði það illa að skiljast við Þorgils á þennan máta en Bolli féllst á það sem móðir hans vildi. Guðrún sagðist skyldu gefa Þorgilsi góðar gjafir til að blíðka201 hann. Þorleikur sagði að það mundi ekki duga til, Þorgils væri of skapstór til að taka við gjöfum frá henni. Guðrún sagði að hann yrði þá að hugga sig sjálfan, heima hjá sér. Þorgils fór heim frá Helgafelli eftir þetta og fannst hann illa svikinn.

Um vorið eftir fóru þeir Þorgils Hölluson og Þorsteinn svarti suður í Borgarfjörð og buðu sonum Helga Harðbeinssonar bætur fyrir víg hans. Var sæst á það mál. Á Alþingi um sumarið var Þorgils tekinn af lífi og tók Snorri goði þátt í því að skipuleggja að honum yrði ráðinn bani.

Sama sumar kom Þorkell Eyjólfsson á skipi sínu í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Þegar Snorri goði frétti af komu hans fór hann til skips Þorkatlar. Hann sagði Þorkatli hvað hefði gerst á meðan hann var í burtu og mældi með því að hætta nú siglingum og ganga í hjónaband, rétt eins og þeir hefðu rætt saman um áður. Þorkell sagðist vera tilbúinn til þess og fór með um tuttugu og fimm menn með sér til Helgafells.

Þegar þeir höfðu verið þar eina nótt kallaði Snorri á Guðrúnu til að tala við hana. Snorri sagði það vera erindi Þorkels að biðja hennar. Guðrún svaraði að synir hennar mundu ráða mestu um hvað yrði að veruleika. Þá lét Snorri kalla á þá og leist þeim vel á að móðir þeirra giftist Þorkatli. Var ákveðið að halda brúðkaup þeirra á Helgafelli um sumarið.

Guðrún undirbjó mikla veislu og bauð hundrað manns. Þeir Snorri og Þorkell komu tímanlega í veisluna með sextíu menn með sér.

Guðrún hafði tekið við manni sem hét Gunnar og var kallaður Gunnar Þiðrandabani, því að hann hafði gerst sekur um að drepa mann sem hét Þiðrandi. Nafni Gunnars var haldið leyndu í veislunni.

Fyrsta kvöld veislunnar fóru menn Þorkels út að þvo sér. Við vatnið hittu þeir stóran og þrekinn mann með hatt á höfði. Þorkell spurði hver hann væri en hann svaraði því sem honum sýndist.
Þorkell segir: „Þú munt ekki segja satt; þú ert nokkuð líkur Gunnari Þiðrandabana. Og ef þú ert svo mikil kempa202 og aðrir segja muntu ekki vilja leyna nafni þínu“.
Gunnar viðurkenndi hver hann væri og spurði hvað Þorkell hefði hugað sér að gera.
Þorkell sagði að hann kæmist brátt að því og bað menn sína um að handtaka Gunnar.

Guðrún sat inni í skála. Þegar hún varð vör við þetta gekk hún ofan af brúðarbekknum og bað menn sína um að veita Gunnari lið og standa með honum. Leit því nú út fyrir að menn Þorkels og Guðrúnar berðust í stað þess að sitja sama í brúðkaupsveislu.

Þá gekk Snorri goði í milli manna og bað Þorkel að láta undan og stoppa.
Þorkell sagði þá: „Nú getur þú séð hve ákveðin og framtakssöm Guðrún er, ef hún getur ráðskast með okkur báða“.
Þorkell sagðist hafa lofað vini sínum að drepa Gunnar Þiðrandabana ef hann sæi hann.
Snorri sagði þá að það væri mun mikilvægara fyrir Þorkel að verða að vilja Guðrúnar og sagði að hann myndi aldrei finna aðra konu eins góða og Guðrúnu, þó hann myndi leita víða.

Þorkell sá að Snorri sagði satt og hefði rétt fyrir sér og róaðist. Gunnari var hins vegar fylgt burt um kvöldið. Svo hélt veislan áfram.

33. Fráfall Þorkels Eyjólfssonar

Eftir brúðkaupsveisluna settist Þorkell að á Helgafelli og tók við búi. Guðrún og Þorkell verða mjög ástfangin hvort af öðru og hamingjusöm saman.
Vorið eftir spurði Guðrún Þorkel hvað hann ætlaði að gera fyrir Gunnar Þiðrandabana. Þorkell sagaði að hún mundi ráða því.
Guðrún sagðist þá vilja að hann gæfi Gunnari skip sitt.
Þorkell gerði eins og Guðrún bað um og fékk Gunnar skipið.
Gunnar sigldi því til Noregs og varð stórauðugur203 maður og þótti góður drengur.

Þegar Bolli Bollason var átján ára gamall bað hann Þorkel og Guðrúnu að leysa út föðurarf sinn og biðja handa sér konu. Þorkell spurði hvaða konu hann vildi biðja en Bolli svaraði að hann vildi eignast Þórdísi, dóttur Snorra goða.
Ósk Bolla um kvenkost rættist og settist Bolli að í Sælingsdalstungu hjá Snorra.

Um sumarið eftir sættust Bollasynir við syni Ólafs Höskuldssonar fyrir víg Bolla föður síns og borguðu Ólafssynir bætur fyrir hann. Eftir það fóru Bollasynir báðir til Noregs og komst Bolli Bollason alla leið til Miklagarðs og gekk í lið keisara.

Eitt sumarið gerði Þorkell Eyjólfsson skip tilbúið til siglingar til Noregs. Hann vildi kaupa sér timbur í kirkju. Áður en að Þorkell fór er sagt að hann hafi sagt Guðrúnu frá draumi sem hann dreymdi: „Mig dreymdi það,“ sagði hann, „að ég væri með rosalegt skegg sem væri svo mikið að það tæki allan Breiðafjörð“.
Þorkell bað Guðrúnu að ráða drauminn.
Guðrún spurði hann fyrst hvað hann héldi sjálfur að draumurinn þýddi.
Þorkell sagði að honum þætti það liggja fyrir, að ríki og völd hans nái um Breiðafjörðinn allan.
Guðrún sagði að svo gæti vel verið, en þó þótti henni líklegra að draumurinn þýða að hann mundi látast í Breiðafirði.

Þorkell sigldi til Noregs og hitti þar Ólaf konung Haraldsson. Veturinn eftir lét konungur gera kirkju í Niðarósi. Kirkjan var stórt og mikið hús og afar vönduð. Um vorið lofaði hann svo að gefa Þorkatli timbur í kirkju.

Einn morguninn snemma dags sá konungur mann uppi á kirkjunni sem hann hafði látið smíða og var í framkvæmdum. Honum þótti það undarlegt, því að smiðir hans voru ekki vanir að fara svo snemma til vinnu. Þegar konungur skoðaði sig betur um sá hann að umræddur maður var ekki smiður á hans vegum, þetta var Þorkell Eyjólfsson og var hann að mæli öll stærstu trén í kirkjunni.

Konungur sneri sér til Þorkels og spurði hvort hann ætlaði að flytja timbur í mjög stóra kirkju heim til Íslands. Þorkell sagðist ætla gera það. Þá sagði konungur honum að höggva tvær góðar spýtur úr hverju tré, þá yrði kirkja Þorkels allra kirkja mest á Íslandi þó hann tæki ekki heilu trén með sér.

Þorkell móðgaðist við þetta og fannst konungur ekki tíma gefa sér timbur eins og samið hafði verið um. Þorkell sagði við konung að hann gæti haldið timbri sínu ef það væri honum um of að missa það og að hann gæti vel orðið sér úti um timbur annars staðar ef svo væri í pottinn búið.

Konungur svarar um hæl og segist ekki sjá eftir timbrinu sem Þorkell ætli að taka. Hann enn og aftur bauð Þorkatli að taka af timbri eins og honum langaði til en sagðist þó halda að aldrei yrði nokkuð mannvirki gert úr því.

Eftir það skilja þeir. Þorkell fer á skip sett og stefnir frá Noregi með timbur með sér. Hann kom skipi sínu í Hrútafjörð og fór þaðan á hestbaki til Helgafells.
Veturinn eftir fór Þorkell niður í Hrútafjörð að sækja kirkjuviðinn204 sinn. Hann lét draga timbrið á tuttugu hestum suður í Hvammsfjarðarbotn og ætlaði að flytja það á ferju út að Helgafelli.

Á skírdag gerði Þorkell ferjuna tilbúna til ferðarinnar. Menn í kringum hann hvöttu hann til þess að bíða með ferðalagið á ferjunni, því þeim fannst vera ótryggt veður. Þorkell lét þó ekki segjast og bar því fyrir sig að vilja komast heim fyrir páska. Veðrið varð enn hvassara og varð hvassviðrið að hinum mesta stormi. Þegar Þorkell og menn hans voru komnir út á sjó á ferjunni og undir Bjarnarey, sást úr landi að hvöss vindkviða kom í seglið og hvolfdi skipinu. Þorkell drukknaði þar og allir þeir menn sem með honum voru líka.

Sama kvöld gekk Guðrún í kirkju á Helgafelli. Þegar hún kom til kirkjunnar þóttist hún sjá að Þorkell og menn hans væru komnir heim og stóðu fyrir utan kirkjuna. Hún sá sjó renna úr fötum þeirra. Guðrún talaði ekki við þá en gekk inn í kirkjuna og dvaldi þar um stund.

Guðrún sér Þorkel og menn hans fyrir utan kirkjuna

Seinna um kvöldið, gekk Guðrún til stofunnar á Helgfelli, því að hún hélt að Þorkell og menn hans væru komnir þangað. Þegar hún kom sá Guðrún hins vegar að engin maður var í stofunni. Þá brá henni mjög.

Daginn eftir, á föstdaginn landa, sendi Guðrún menn inn eftir Snæfellsnesi að forvitnast um ferðir Þorkels. Mennirnir sáu að það var viður rekin um allar strandir, eða með öðrum orðum að timbur hefði flotið upp að ströndunum. Á laugardaginn fréttist það síðan til Helgafells hvað hefði orðið um Þorkel og félaga.
Guðrúnu sárnaði fráfall Þorkels mjög en tókst að bera sig þokkalega vel miðað við aðstæður.

Guðrún og Þorkell áttu fjórtán ára son sem hét Gellir. Gellir tók við búi eftir föður sinn á Helgafelli. Guðrún gerðist eftir þetta mikil trúkona og eyddi löngum stundum í kirkju.

Sagan segir að hún hafi verið fyrsta nunna Íslands og einsetukona205.

34. Þeim var ég verst

Fjórum árum eftir að Þorkell Eyjólfsson drukknaði kom Bolli Bollason á skipi sínu til Eyjafjarðar. Hann fór með tólf mönnum með sér vestur um sveitir. Þeir voru allir í skarlatsklæðum og höfðu gyllta söðla á hestum sínum. Bolli hafi á sér rauða skarlatskápu, gyrtur Fótbót206 og hafði látið setja gull á hjölt207 sverðsins. Hann hafði á gylltan hjálm á höfði sér og rauðan skjöld á hliðinni með riddara úr gulli á.

Bolli og menn hans fóru að Helgafelli og var Guðrún glöð að sjá son sinn. Síðan fór Bolli vestur til Sælingsdalstungu og var þar um veturinn.
Árið eftir veiktist Snorri goði og dó. Þá tóku Bolli og Þórdís við búi í Tungu. Bolli varð afar hæfur maður og vinsæll.

Eitt sinn kom Bolli til Helgafells, því að Guðrúnu þótti gott að hafa hann hjá sér. Bolli sat hjá móður sinni og töluðu þau um allt milli himins og jarðar. Bolli spurði móður sína: „Muntu segja mér það móðir, það sem ég er svo forvitinn að vita? Hvaða manni hefur þú mest unnað208?“

Guðrún svarar honum og segir: „Þorkell var maður ríkastur og mestur höfðingi. En enginn var myndarlegri en Bolli. Þórður Ingunnarson var vitrastur af þeim öllum og kunni best skil á lögum. Um Þorvald hef ég ekkert að segja“.

Bolli svarar móður sinni og segist ekki alveg skilja hvað hún eigi við. Hann segir: „Þú hefur þulið þá upp alla sem einn en það vissi ég mætavel hverjir þeir voru. Þú svaraðir þó ekki undun minni um hverjum þeirra þú unnir mest. Þú þarft ekki að leyna mér því lengur“.

Guðrún og Bolli tala saman

Guðrún svarar: „Þú skorar fast á mig, sonur minn. En ef ég skal segja nokkrum manni segja frá því þá mun ég velja þig sem þann mann“.
Bolli bað hana að gera það þá og segja sér hverjum hún hefði unnað mest.
Þá mælti Guðrún: „Þeim var ég verst er ég unni mest209“.

Guðrún varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði blind. Guðrún dó á Helgafelli og þar hvílir hún.

Kort af Breiðafirði

Heimildir

Óþekktur höfundur, Gunnar Karlsson og Ragnar Ingi Aðalsteinsson. (2017). Laxdæla saga. Menntamálastofnun. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/LAXDAELAsaga/

Neðanmálsgreinar


  1. sagðist↩︎

  2. djúpúgða merkir hin vitra↩︎

  3. víkingaöld er tímabil í sögu Norður-Evrópu frá 793-1066↩︎

  4. fjármuni/peninga/verðmæti↩︎

  5. sérstök/einstök↩︎

  6. feilan merkir ylfingur, úlfshvolpur↩︎

  7. giftast konu væri mögulega betra orðalag.
    Þetta er valið í samræmi við bókina Óþekktur höfundur o.fl. (2017)↩︎

  8. gerski merkir að hann er frá því svæði í Rússlandi sem kallað var Garðaríki↩︎

  9. Maður sem hefur það að atvinnu að selja vörur.↩︎

  10. ambátt merkir kvenkyns þræll↩︎

  11. ómála merkir mállaus↩︎

  12. frilla merkir hjákona, ástkona kvænts manns↩︎

  13. daufur merkir heyrnarlaus - þetta er óheppilegt orðalag og er sjaldan notað nú á dögum↩︎

  14. sveinbarn merkir barn sem er drengur/strákur↩︎

  15. alls óljóst hvað goddi merkir en hefur þó verið skýrt sem litli goðinn↩︎

  16. pái er annað nafn fyrir páfugl sem er með mjög skrautlegt stél. Ólafur fær þetta viðurnefni vegna þess hve skrautlega hann er klæddur↩︎

  17. skrjúpur merkir holóttur↩︎

  18. tannfé er gjöf sem barn fær í tilefni þess að missa fyrstu tönnina↩︎

  19. frændsemi merkir skyldleiki↩︎

  20. hirð er fólk sem þjónar konungi↩︎

  21. herská hersveit er hersveit sem er fús til að stunda ófrið↩︎

  22. þ.e., bað hann um að ákveða það↩︎

  23. ferðbúið merkir að það sé tilbúið til ferðar↩︎

  24. ráð merkir hér gifting↩︎

  25. fyrirmannlegur merkir glæsilegur, höfðingjalegur↩︎

  26. skarlatsklæði eru föt úr lituðu efni, oftast rauð.↩︎

  27. búðir voru bráðabirgðahúsnæði sem goðarnir komu sér upp á þingstöðum og dvöldu í meðan þingið stóð yfir.↩︎

  28. eitthvað sem er auðsótt fæst auðveldlega, er alveg sjálfsagt↩︎

  29. sá sem er léttur í brún er glaður í bragði↩︎

  30. tólf aurar eru um það bil 324 grömm, en einn eyrir var um 27 grömm.↩︎

  31. í viðurvist votta (stundum sagt vitna í stað votta) merkir að einhver heyrði til eða sá hvað fór fram. Sem sagt, það er einhver sem var vottur af samskiptum Höskulds og Þorleiks um þetta mál.↩︎

  32. andast merkir að deyja/látast↩︎

  33. þeim þótti ekki minna vænt um hann↩︎

  34. vígamaður er maður sem er hluti af vopnaðri sveit sem ræðst á fólk og drepur það↩︎

  35. maður sem er hagur er góður smiður, verklaginn↩︎

  36. skart eru fín föt, spariföt↩︎

  37. hjalt er handhlíf á sverði↩︎

  38. meðgjöf merkir meðlag, það sem er greitt með barni til að kosta uppeldi þess.↩︎

  39. húskarlar voru frjálsir vinnumenn↩︎

  40. láta lífið/deyja↩︎

  41. skartgjörn merkir að hún hafi gaman af að bera fallega skartgripi↩︎

  42. krókfaldur er höfuðfat sem konur báru fyrr á tímum, húfa með krók upp úr.↩︎

  43. dreyra merkir að blæða↩︎

  44. þýðir að vera drepinn með vopni, t.d. sverði.↩︎

  45. rann út í fjörðin↩︎

  46. Mikið er til að hyggja merkir að það séu mikil tíðindi í vændum↩︎

  47. litaraft merkir litsháttur í andliti - Þorvaldur sló hana og fyrir vikið varð hún rauð í andliti↩︎

  48. launa merkir hér að borga til baka - eða hefna sín á.↩︎

  49. merkir hér að hann hafi ekki verið þess meðvitaður eða fundið fyrir því - upplifað það sem svo.↩︎

  50. merkir hér hvaða afleiðingar það geti haft í för með sér↩︎

  51. skilnaðarsök merkir ástæða til að slíta hjónabandi.↩︎

  52. ráðlegra merkir hér „hvor kosturinn sé betri/skárri“.↩︎

  53. Aftans bíður óframs sök merkir að málefni hins lata bíða til kvölds - eða með öðrum orðum „á morgun segir sá lati“ - hún er því hér að gefa til kynna að ef hann er ekki latur muni hann ekki bíða með það - ekki er ákjósanlegt að vera kallaður letingi↩︎

  54. sel var það kallað þegar búpeningu (oftast kindur) var hafður í húsum fjarri bæjum, kindur mjólkaðar og unninn matur úr mjólkinni↩︎

  55. þýðir þar nálægt↩︎

  56. smalamaður er sá sem sér um að gæta (þ.e. passa upp á) kindanna sem eru í selinu↩︎

  57. sax var stutt sverð, oftast eineggjað, sem þýðir að það var með biti öðrum megin líkt og hnífar nú til dags.↩︎

  58. mæddi blóðrás þýðir að blóðrennslið vegna sársins sem varð til þegar Auður hjó til hans varð honum til vandræða, hann var jafnvel í lífshættu.↩︎

  59. verða fyrir áverka merkir hér að hafa fengið sár↩︎

  60. stefna einhverjum til dóms merkir að kæra einhvern↩︎

  61. málsnjöll merkir að vera vel að máli farin, snjöll að svara fyrir sig↩︎

  62. þ.e., líkaði vel hvort við annað↩︎

  63. Hér á Ólafur við að honum þyki engin kona vera nógu góð fyrir hann↩︎

  64. fyrirskipa er að gefa fyrirmæli um eitthvað eða þröngva einhverju upp á einhvern↩︎

  65. smelltu hér til að lesa um Ásatrú↩︎

  66. merkir að koma með↩︎

  67. merkir að kaffræra honum↩︎

  68. merkir að standa á sama - finnast það ekki skipta máli↩︎

  69. að þreyta sund merkir að keppa í sundi (að þreyta er dregið af orðinu þraut)↩︎

  70. hér eru menn Kjartans að hafa áhyggjur af því að Kjartan sé á hálum ís þess að gerast liðsmaður konungs.↩︎

  71. Konungur er hér að gefa til kynna að engin ógn stafi af mönnunum úr Þrándarheimi og aukinheldur að hann ráði auðveldlega við þá, ef svo færi að þeir létu reyna á bardaga↩︎

  72. hversu fús ert þú merkir um það bil „hversu mikið ert þú til í“↩︎

  73. afarkostir eru Mjög harðir kostir, harkaleg einhliða skilyrði (t.d. í samningi), eða m.ö.o. mjög erfiðir skilmálar↩︎

  74. sem þýðir að Bolli sé að taka undir með Kjartani varðandi meintar hótanir↩︎

  75. merkir að hann vilji ekki vera viljalaus maður sem hlýði öðrum, eða m.ö.o. að vera nauðugur merkir að þurfa að gera eitthvað og Kjartan vill ekki þurfa hlýða konungi frekar en hann sjálfur vill.↩︎

  76. aukinheldur merkir til viðbótar↩︎

  77. stekkur var fjárrétt, þar sem lambakró var hlaðin innst↩︎

  78. melrakki merkir refur↩︎

  79. giftudrjúgur merkir gæfusamur↩︎

  80. einurð merkir djörfung, hreinskilni - þ.e. þor til að gangast við því↩︎

  81. eggja einhvern til einhvers merkir að hvetja (e-n), skora á (e-n) að gera e-ð↩︎

  82. hér á konungur við að menn, jafn siðaðir (þ.e. heiðarlegir, kurteisir) og Kjartan, séu sjaldgjæfir eða með öðrum orðum að þá sé ekki að finna á hverju strái↩︎

  83. orðskviður merkir málsháttur↩︎

  84. hirðmaður er maður sem starfar við hirð konungs og hirð er fólk sem þjónar konungi↩︎

  85. frændur í Íslendingasögunum vísar í raun ekki aðeins til þess sem við þekkjum nú á dögum sem frændur heldur til allra Íslendinga - sér í lagi í samhengi eins og um er að ræða hér↩︎

  86. ráðgera merkir að hafa fyrirætlun, eða áform um eitthvað - m.ö.o. skipuleggja eitthvað↩︎

  87. Takið eftir að Kjartan og Bolli er frændur í sama skilningi og við tölum um nú á dögum - eða svo gott sem það. Ólafur faðir Kjartans og Þorleikur faðir Bolla voru hálfbræður↩︎

  88. iðulega merkir nánast alltaf - eða oftast↩︎

  89. hér merkir frændi það sama og frændi í nútíma máli↩︎

  90. hirð merkir sveit konungsmanna, fólks sem hefur sérstökum skyldum að gegna í návist konungs og hefur bundist honum sérstökum tryggðaböndum.↩︎

  91. þ.e. um að giftast sér↩︎

  92. merkir að hann kom og talaði við hann↩︎

  93. mekrir hér að hún hafi ekki verið alsátt með þessa niðurstöðu↩︎

  94. þ.e. að Íslendingar hafi tekið kristni↩︎

  95. hér er Ólafur að tala um Ingibjörgu↩︎

  96. hér er rétt að árétta að Kjartan veit ekki af brúðkaupi Bolla og Guðrúnar og má því gera ráð fyrir því að Kjartan hafi bæði ætlað sér og talað um það við Ingibjörgu að giftast Guðrúnu↩︎

  97. vopnbitinn maður er maður sem hefur verið særður með vopni, til dæmis sverði↩︎

  98. varningur er dót eða hlutir↩︎

  99. gersemi er eitthvað sem er mjög verðmætt, dýrmæti↩︎

  100. hér er Kjartan að biðja Hrefnu um að giftast sér↩︎

  101. vonbiðill merkir maður sem hefur beðið sér konu og bíður svars↩︎

  102. hér er Bolli að snúa út úr og segjast hafa sagt henni það sem hann héldi að væri satt↩︎

  103. að vera kátur merkir að vera glaður↩︎

  104. einhver sem er fálátur er einhver sem segir lítið, er fáskiptinn↩︎

  105. stóðhestur er ógeltur hestur í stóði; stóð er hópur hesta í haga↩︎

  106. einhver sem er fálátur er einhver sem segir lítið, er fáskiptinn↩︎

  107. að kvongast er gamalt orð sem merkir að gifta sig (á við um karlmann)↩︎

  108. vist merkir dvöl á einhverjum stað↩︎

  109. þ.e. hvernig og hvar konurnar ættu að sitja↩︎

  110. sitja í öndvegi merkir að sitja í virðingarsæti, þ.e. sitja þar í því sæti sem er tengt við mestu virðinguna↩︎

  111. þ.e. sagði ekkert um hann↩︎

  112. snjóföl merkir þunnt snjólag á jörð↩︎

  113. kelda er pyttur eða dý í votlendi↩︎

  114. að vera tregur til einhvers merkir að vera ófús til einhvers, ekki sáttur↩︎

  115. fara halloka merkir að bíða ósigur eða með öðrum orðum að tapa↩︎

  116. hvort tveggja merkir bæði, eða í þessu samhengi: báða gripina til baka↩︎

  117. stuldur merkir þjófnaður, það að stela↩︎

  118. fjandskapur er mikil andúð, óvild, eða óvinátta↩︎

  119. búningsbót er það sem bætir búninginn, gerir klæðaburðinn glæsilegri↩︎

  120. hafa eitthvað fyrir satt merkir að trúa einhverju, vera nokkuð viss um eitthvað↩︎

  121. að ráði Guðrúnar merkir að Guðrún hafi fyrirskipað það, óskað eftir því eða beðið um það↩︎

  122. vistir eru forði af matvælum til að nota síðar, matarbirgðir↩︎

  123. salerni eru klósett↩︎

  124. þ.e. mennirnir sem Kjartan hafði með sér↩︎

  125. Smelltu hér til að lesa skemmtilega fréttaskýringu um deilur Laugamanna og Hjarðhyltinga.↩︎

  126. þ.e. mér líkar það ekki, mislíkar↩︎

  127. merkir hér meira en nóg↩︎

  128. að kjósa sér eitthvað er að velja eitthvað↩︎

  129. gæfi honum tvo valkosti↩︎

  130. málga merkir hin máluga, málglaða (hún hefur þótt tala mikið)↩︎

  131. vaðmál er ullarefni með vaðmálsvend (skávend), sem myndar skáhallar rákir yfir voðina↩︎

  132. merkir að fá hrós, gott umtal↩︎

  133. smalamaður er maður sem smalar og hirðir búfé↩︎

  134. andrá er annað orð fyrir augnablik↩︎

  135. fyrirsát er annað orð yfir að sitja fyrir einhverjum↩︎

  136. að sækjast að merkir að nálgas einhvern, gera árás á einhvern↩︎

  137. níðingsverk er ofbeldisfullt fólskuverk, eða illvirki↩︎

  138. að þiggja banaorð merkir að deyja af þinni hendi, þ.e. að þú drepir mig↩︎

  139. hér er átt við að hann vilji frekar deyja en drepa frænda sinn↩︎

  140. þ.e. hann drap hann↩︎

  141. tíðindi eru fréttir↩︎

  142. það er hliðstætt því að spyrja um hvað klukkan sé↩︎

  143. alin er gömul mælieining fyrir lengd, mislöng eftir tímabilum, síðast 62,7 cm↩︎

  144. garn er þráður úr ull, bómull eða öðru efni, t.d. til að prjóna eða hekla úr↩︎

  145. vegið merkir að drepa↩︎

  146. hér er Án að meina að hann hafi hreinlega sofnað þegar hann hafi verið sleginn niður í bardaganum↩︎

  147. þ.e. að hann kæmi ekki til baka↩︎

  148. ráðleggja merkir að segja einhverjum hvað best sé að gera, gefa einhverjum ráð um eitthvað↩︎

  149. í gamla daga var orðið skógarmaður notað yfir mann sem dæmdur var til skóggangs, það er, friðlaus, réttdræpur og refsivert var að hjálpa honum. Með öðrum orðum, mátti hver sem er drepa þá án þess að þurfa óttast einhverjar afleiðingar↩︎

  150. heift merkir hatursfull reiði eða bræði og merkir því heiftarfengin að hún hafi upplifað hatursfulla reiði og viljað hefna sín↩︎

  151. að þykja sár fósturlaun merkir að finnast einhver hafa þakkað fyrir að vera tekinn í fóstur með ósæmd. Munum að Þorgerður og Ólafur tóku Bolla í fóstur og þótti Þorgerði að Bolli hefði heldur betur svikið sig og launað henni fyrir það með níðingsverkinu↩︎

  152. munum að það er Egill Skalla-Grímsson↩︎

  153. garpur er maður sem skarar fram úr hvað varðar þrek og styrk, afreksmaður↩︎

  154. heyverka er það að verka hey; að verka er að hreinsa eða vinna eitthvað. Með öðrum orðum, voru húskarlarnir að fara slá grasið.↩︎

  155. förunautar eru liðsmenn, í þessu tilfelli liðsmenn Halldórs↩︎

  156. léreft er sléttofið efni úr bómull eða hör↩︎

  157. sá sem er óvígur er einhver sem getur ekki barist↩︎

  158. offors merkir ruddalegur ákafi↩︎

  159. Athugið að það verður að teljast í besta falli ólíklegt að Þorgerður segi þetta af nokkurri góðmennsku. Þess heldur, að hún vilji að Guðrúnu líði álíka illa og henni sjálfri leið þegar hún heyrði af því sem komið hafði fyrir Kjartan.↩︎

  160. kyrtill er síð og víð flík, oft með bandi um mittið↩︎

  161. harma merkir að þykja eitthvað leitt↩︎

  162. rausnarlegt merkir stórt og mikið í þessu samhengi↩︎

  163. merkir hér að vera góður með sig↩︎

  164. lög eru í þessu samhengi formleg, skrifleg fyrirmæli og reglur löggjafans en ekki söngvísur↩︎

  165. einhver sem er ættstór er sá sem er af góðum ættum↩︎

  166. láta af einhverju merkir að hætta einhverju, t.d. þýðir „láttu af allri stríðni“ það sama og „hættu allri stríðni“↩︎

  167. hann var ættstór og því á hann ætt til slíks að mati Snorra↩︎

  168. nafnbót er titill, tignarheiti, t.d. greifi, jarl, heiðursdoktor↩︎

  169. þroskaður á við fullorðinn mann að afli og vitri merkir að hann hafi verið stór og sterkur á við fullorðinn mann og álíka klár og með hugræna færni á við fullorðinn mann↩︎

  170. spánnýr merkir alveg nýr↩︎

  171. jafna vígum þeirra saman merkir að telja morð þeirra jöfn eða telja annað geta komið í staðinn fyrir hitt↩︎

  172. samlendum hér merkir á sama landi↩︎

  173. eggja einhvern til einhvers merkir að hvetja (e-n), skora á (e-n) að gera e-ð↩︎

  174. reikna má með því að hestavíg hafi verið eins konar leikur þar sem menn eggjuðu hesta sína til bardaga. Fátt er um heimildir um slíkan leik á íslensku en hér má smella til að skoða örlitla umfjöllun um hestavíg á ensku.↩︎

  175. mæðgin eru móðir og sonur (synir) hennar
    ÚR MÁLFARSBANKANUM:
    Nafnorðið mæðgin er fleirtöluorð í hvorugkyni. Ein, tvenn, þrenn, fern mæðgin. Mæðginin Gréta Aradóttir og Finnur Friðriksson eru tvær manneskjur og ein mæðgin. Mæðginin Gréta Aradóttir og Finnur Friðriksson og mæðginin Svava Ólafsdóttir og Bjarni Karlsson eru fjórar manneskjur og tvenn mæðgin.↩︎

  176. hér er átt við að þeir eru sorgmæddir að eiga ekki föður og að Guðrún sé sífellt að mana þá til að hefna↩︎

  177. mágur merkir bróðir maka e-s; maður systur (eða bróður) e-s↩︎

  178. afarkostir eru harðir kostir, hörð skilyrði, eða mjög erfiðir skilmálar↩︎

  179. kufl er síð og víð flík sem einkum munkar klæðast↩︎

  180. fávís maður er sá maður sem veit fátt↩︎

  181. **garpur er maður sem skarar fram úr hvað varðar þrek og styrk, afreksmaður↩︎

  182. munum að skógarmaður er maður dæmdur til skóggangs (friðlaus, réttdræpur og refsivert var að hjálpa honum)↩︎

  183. dagverður er annað, fornt, orð yfir morgunverð↩︎

  184. *smalamaður** er maður sem smalar og hirðir búfé↩︎

  185. söðull er leðursæti sem fest er á hest, einkum handa konum til að hafa báða fætur sömu megin á hestbaki↩︎

  186. maður sem lítur út fyrir að vera drengilegur er jafnan sá sem sýnir gott og göfugt lunderni eða framkomu, þ.e. heiðarlegur maður↩︎

  187. kollvik eru vik upp í hárið upp og aftur af gagnaugum, þ.e. hárlaust svæði ofarlega á enni, upp af gagnaugum↩︎

  188. sá sem er bláeygur er með blá augu↩︎

  189. munum að kyrtill er síð og víð flík, oft með bandi um mittið↩︎

  190. hér má sjá mynd af húsgafli↩︎

  191. eitthvað sem er gert djarflega er það sem gert er á djarfan hátt, eða af hugrekki↩︎

  192. áverki er sár eða önnur meiðsli↩︎

  193. banasár er það sem veldur dauða↩︎

  194. klækisverk er níðingsverk, ódrengskapur; smelltu hér til að sjá dæmi um klækisverk í Ritmálasafni Orðabókar Háskólans↩︎

  195. **víg* merkir það að drepa mann, einkum með vopni; þeir voru því með öðrum orðum að lýsa morðunum sem þeir frömdu↩︎

  196. rekkjur er hátíðlegt orð yfir rúm (fleirtala)↩︎

  197. Munum: **Víg* merkir það að drepa mann, einkum með vopni↩︎

  198. að vera mettur er annað orð yfir saddur↩︎

  199. mæla í móti merkir að andmæli, þ.e. vera ósammála↩︎

  200. roðna við merkir að verða rjóður í andliti, þ.e. að fá rauðar kinnar; sennilegast hér vegna reiði en ekki skammar↩︎

  201. blíðka einhvern merkir að gera hann mildari, eða rólegri↩︎

  202. kempa er orð yfir einhvern sem er hetja, eða kappi↩︎

  203. stórauðugur merkir ríkur, efnaður↩︎

  204. kirkjuviður er timbur í kirkju↩︎

  205. einsetukona er kona sem er einbúi, þ.e. býr ein. Með öðrum orðum fann hún sér ekki annan eiginmann eftir þetta. Þess heldur lifði hún einöngruðum lífstíl.↩︎

  206. þ.e. hafði Fótbít á sér↩︎

  207. hjölt er þverstykki á sverði milli handfangs og brands, þ.e. sverðshjölt↩︎

  208. unna einhverjum merkir að elska einhvern↩︎

  209. ég elskaði þann mann mest sem ég var verst við↩︎